Vilja hefja vinnu á nýju svæði að ári

Laugin í Landmannalaugum hefur mikið aðdráttarafl.
Laugin í Landmannalaugum hefur mikið aðdráttarafl. Tölvumynd/VA-arkitektar

Rangárþing ytra hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats nýrrar þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum. Nú er meginþjónustukjarninn undir Laugahrauni en meginþungi þjónustunnar verður færður norður fyrir Námshraun og dagaðstaða norður fyrir Námskvísl. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar í febrúar 2018 er framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum. Landmannalaugar eru innan Friðlandsins að Fjallabaki og eru einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á hálendi Íslands.

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, segir að ferlið að breytingum á skipulagi í Landmannalaugum hafi tekið 6-7 ár, en nú sjái vonandi fyrir endann á því. Á síðustu árum hafi sveitarfélagið meðal annars staðið fyrir samkeppni um skipulag Landmannalauga og í kjölfarið unnið deiliskipulag sem hafi tekið gildi með fyrirvara um umhverfismat. Nú sé matsáætlun komin til Skipulagsstofnunar og á þeim grunni ætti umhverfismat að liggja fyrir á næsta ári í kjölfar athugasemda og úrvinnslu. Umsjón með matsvinnu er í höndum Landmótunar sf.

Í þágu náttúruperlunnar

Ágúst segir að ef allt gangi eftir verði vonandi hægt að byrja framkvæmdir á nýju svæði næsta haust. Sveitarfélagið hafi útvegað fjármagn til að fara í gerð bílastæða, sem verði fyrsta verkefnið þar. Hann segir að ferlið sem tengist skipulagsmálunum sé flókið og kostnaðarsamt og leitað hafi verið til færustu sérfræðinga.

Reynt hafi verið að fara eftir bókinni í einu og öllu og skilyrðum fylgt til hins ýtrasta í þágu náttúruperlunnar í Landmannalaugum. Á svæði eins og í Landmannalaugum sé brýnt að vanda til verka. Varðandi kostnað við skipulagsvinnuna segir Ágúst að styrkur hafi fengist til hennar, en eigi að síður lendi talsverður kostnaður á sveitarfélaginu.

Við Námshraun. Dæmi um mögulegt útlit þjónustuhúss við manngerða laug.
Við Námshraun. Dæmi um mögulegt útlit þjónustuhúss við manngerða laug. Tölvumynd/VA-arkitektar

Mikil uppbygging

Áætlað er að flatarmál svæðis sem fari undir ný mannvirki, það er byggingar, palla, skýli, brýr, timburstíga o.fl., verði alls 4.900 fermetrar. Móttökuhús á uppbyggðum bakka við Jökulgilskvísl á að þjóna gestum friðlandsins, sem og rannsóknaraðilum og starfsmönnum. Þar verður veitingasalur, eldhús, snyrtingar, upplýsingaþjónusta, verslun með minniháttar viðlegubúnaði, fræðslu- og kynningasalur, dagaðstaða fyrir landverði og rannsóknaraðila og kaffistofa/hvíldarrými.

Við Námshraun er gert ráð fyrir sex gestaskálum með svefnaðstöðu fyrir 16-20 manns í hverjum skála og fjórum starfsmannaskálum sem hver rúmar 4-10 manns. Þar er áætlað að gerð verði manngerð laug og við Námshraun verði ennfremur tjaldsvæði fyrir a.m.k. 150 tjöld og 50 húsbíla, hestagerði og hestaskýli. Fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér nokkra varnargarða og rofvarnir fyrir Jökulgilskvísl og Námskvísl.

mbl.is

Flest mannvirki fjarlægð af svæðinu við Laugahraun

Samfara uppbyggingu nýs tjaldsvæðis og gistiaðstöðu norðan við Námshraun verða gerðar breytingar á aðstöðu við skála Ferðafélags Íslands við Laugahraun, en skálinn er um 242 fermetrar og þar er gistipláss fyrir 78 gesti. Við skálann er gert ráð fyrir afmörkuðu tjaldsvæði fyrir gönguhópa, þó aldrei fyrir fleiri en 30 hefðbundin viðlegutjöld. Öll önnur mannvirki en skáli Ferðafélags Íslands skulu fjarlægð af svæðinu við Laugahraun, þ.e. hreinlætisaðstaða, hesthús, starfsmannahús, aðstaða hálendisvaktar og hestaleigu sem og önnur tímabundin aðstaða.

Með matsáætlun sem nú hefur verið lögð fram fylgja ábendingar og athugasemdir við drög að tillögu að matsáætlun og viðbrögð við þeim. Brugðist hefur verið við ýmsum athugasemdum, en sagt að aðrar verði teknar til skoðunar við gerð umhverfismatsskýrslu.

Farsælla að laga eldra svæði

Í athugasemdum frá Ferðafélagi Íslands er bent á að fyrirhugaðar breytingar á þjónustusvæði kunni að stofna mikilvægum hagsmunum FÍ í voða. Félagið áskilur sér rétt til bóta vegna mögulegs eignarnáms eða íþyngjandi skipulagsákvæða. Þessum atriðum er ekki svarað í matsáætlun.

Svæðið undir Laugahruani og skáli Ferðafélagsins.
Svæðið undir Laugahruani og skáli Ferðafélagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„FÍ er enn þeirrar skoðunar að farsælla hefði verið að vinna með lagfæringar á núverandi svæði en að hefja nýtt landnám og uppbyggingu á nýju þjónustusvæði norðan Námshrauns, hefði verið einfaldara, fljótlegra, hagkvæmara og haft í för með sér mun minna rask,“ segir í athugasemdum FÍ.

Ennfremur telur Ferðafélag Íslands að spurningum varðandi kostnað við uppbyggingu sé ósvarað og bendir á að rekstrarlegar forsendur í Laugum takmarkist við 3-4 mánuði á ári. Ef til lengingar tímabilsins eigi að koma þurfi að bæta samgöngur sem auki álag á svæðið.

Um þessi atriði segir Ágúst sveitarstjóri að hann telji ekki að gengið verði á hlut Ferðafélagsins með breytingunum og skáli félagsins fái að standa undir Laugahrauni. Samskiptin við Ferðafélagið hafi að mörgu leyti verið með ágætum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert