Góður gangur er í framkvæmdum við gerð nýs Vestfjarðavegar úr Vatnsfirði upp á Dynjandisheiði. Alls er vegurinn nýi um 10 kílómetrar og nær frá láglendi upp í 480 metra hæð. Í brekkunum á þessum kafla, þar sem heitir Penningsdalur, er nýtt vegstæði í klifi sem sprengt var utan í fjallshlíðina. Nýi vegurinn nær að brúnni yfir Þverdalsá, sem er á háheiðinni.
Íslenskir aðalverktakar hafa vegagerð þessa með höndum og 20 manna vinnuflokkur fyrirtækisins er á svæðinu. Stór floti af gröfum, borvögnum, jarðýtum og búkollum er til notaður til verksins. Einnig búnaður til sprenginga, sem hafa verið stór hluti af verkinu.
„Okkur miðar vel áfram. Hér ætlum við að þreyja dagana og vera við störf inn í haustið uns snjór og vetrarríki taka fyrir slíkt,“ sagði Bjarki Laxdal staðarverkstjóri þegar Morgunblaðið hitti hann á staðnum nú í vikunni.
Neðst í Penningsdal er vegurinn nýi tilbúinn og slitlag verður sett einhvern tíma á næstu vikum. „Ef slitlag fer nú í haust á 2,5 kílómetra kafla held ég að allir verði mjög sáttir. Við höldum svo áfram að byggja upp aðra hluta vegarins eins og aðstæður leyfa,“ segir Bjarki.
Með tilkomu Dýrafjarðarganga, sem opnuð voru á síðasta ári, lögðust af vegur og umferð yfir Hrafnseyrarheiði. Sú var farartálmi og vegurinn aðeins sumarfær, rétt eins og Dynjandisheiðin. Með framkvæmdum þar nú verður til góður og greiður vegur sem haldið verður opnum árið um kring. Framhaldið á Dynjandisheiði er svo uppbygging á 12 kílómetra löngum kafla, 2-3 ára verkefni sem gæti hafist á næsta ári. Síðasti áfanginn á heiðinni er svo 7 km langur, en hann er á áætlun 2023 og 1-2 ára verk.
Milli Dýrafjarðarganga og Vatnsfjarðar eru 36 kílómetra. Raunar hefur verið nefnt að í framtíðinni gæti aðalleiðin milli Ísafjarðarsvæðisins og Reykjavíkur orðið þessi, í stað þess að farið sé um Djúp eins og nú tíðkast. Þar hangir á spýtunni að nú er verið að leggja nýjan veg fyrir botni Arnarfjarðar. Þá eru þverun Þorskafjarðar og vegagerð í Gufudalssveit að komast af stað – sem skapar nýjar leiðir og möguleika.