Ríkiskaup fyrir hönd Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna auglýsti nýlega í Morgunblaðinu eftir 5.000 til 15.00 fermetra húsnæði undir ýmsar stofnanir ríkisins. Tekið er fram að húsnæðið þurfi að vera nútímalegt og sveigjanlegt. Ný tækni býður upp á ýmsa möguleika, svo sem að geyma upplýsingar og gögn í skýjum sem alltaf eru aðgengileg í far- og spjaldtölvum.
Meðal helstu verkefna Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FR) er að þróa og útvega aðstöðu fyrir ríkisstofnanir, upplýsir Karl Pétur Jónsson upplýsingafulltrúi. Miklar breytingar séu að verða á vinnuumhverfi á flestum vinnustöðum og eru ríkisstofnanir þar engin undantekning. Breytingarnar eru meðal annars tilkomnar vegna aukinnar notkunar á stafrænni tækni sem eykur þarfir fyrir sveigjanlegri vinnuaðstöðu sem aðlaga má að breytingum á verkefnum til lengri eða skemmri tíma.
„Þessi þróun kallar á breyttar áherslur í húsnæðisöflun ríkisins sem stuðla að markmiðum um betri þjónustu og auknum sveigjanleika og samlegð í starfsemi stofnana,“ segir Karl Pétur.
Byggja þurfi upp og þróa hagkvæmara húsnæði sem nýtt verður með sveigjanlegum hætti undir margar stofnanir. Með þessu megi ná fram markvissari nýtingu á innviðum og rýmum sem nýtt eru undir starfsemi á vegum ríkisins ásamt því að ná um leið aukinni samlegð í daglegri starfsemi, virkari þekkingarmiðlun og hagræðingu í rekstrarþáttum.
Vegna þessarar þróunar á starfsumhverfi stofnana séu sjáanleg merki um að aukin þörf sé á nútímalegri og sveigjanlegri aðstöðu. Af þeim sökum hafi verið ákveðið að fara af stað með markaðskönnun til að kanna hvaða valkostir væru til staðar á markaðnum í dag.
Ekki verður tekin ákvörðun um flutning einstakra stofnana á þessu stigi og er markaðskönnunin m.a. liður í því að hægt verði að stíga slík skref, segir Karl Pétur.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) gaf í janúar síðastliðnum út stefnuskjal með áherslum og viðmiðum fyrir húsnæðismál stofnana. Meðal meginmarkmiða stefnunnar er hagkvæm og markviss húsnæðisnýting og fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styðji við teymisvinnu og samstarf.
Breyttar áherslur felast meðal annars í því að horfið er frá þeirri stefnu að meirihluti starfsfólks hafi til afnota einkaskrifstofu, en aukið pláss fer þess í stað í fjölbreytta verkefnamiðaða vinnuaðstöðu svo sem fundarherbergi, hópvinnurými, næðisrými og félagsleg rými.
Nýlega var skýrt frá því í frétt hér í blaðinu að unnið væri að endurmati á fyrirhugaðri nýbyggingu sem rísa mun hjá Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Er það gert vegna þeirra breyttu viðmiða sem tekin hafa verið upp varðandi húsnæði ríkisstofnana.
Í markaðskönnuninni sem auglýst var á dögunum er gert ráð fyrir því að nýtt húsnæði fyrir ríkisstofnanir verði tekið á leigu til 25 ára með mögulegri framlengingu. Gerð er krafa um um staðsetningu miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynningarfrestur var til 1. október en hann var síðan framlengdur um 15 daga.