„Besta veðrið er ekki að finna á Íslandi“

Ein af þeim þremur B-2 sem staðsettar voru á öryggissvæðinu …
Ein af þeim þremur B-2 sem staðsettar voru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í haust. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

„Ég hafði satt best að segja áhyggjur í byrjun. Besta veðrið er ekki að finna á Íslandi. Það er ellefu stiga hiti, stundum blæs vindurinn 16 metra á sekúndu og það rignir svo gott sem daglega. Og þoturnar þurftu að sitja úti allan tímann. Menn höfðu því áhyggjur af því hvernig þær myndu standa sig við þessar veðuraðstæður verandi án flugskýlis,“ segir Matthew Howard, undirofursti og stjórnandi í 110. sprengjusveit.

Vísar hann í máli sínu til þess þegar hingað til lands komu þrjár bandarískar kjarnasprengjuflugvélar af gerðinni Northrop Grumman B-2 og höfðu aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í um þrjár vikur. Þaðan flugu vélarnar æfingaleiðangra út á Atlantshaf og æfðu með flugsveitum frá Noregi og Bretlandseyjum.

Þær flugsveitir notast við orrustuþotur af gerðinni F-16, F-15 og Eurofighter Typhoon. Aldrei fyrr hafa sprengjuvélar af þessari gerð haft svo langa viðkomu hér á landi, en B-2 lenti fyrst í Keflavík árið 2019 og stoppaði þá stutt við. Tilgangur þeirrar ferðar var að æfa eldsneytistöku með hreyflana enn í gangi.   

Howard undirofursti segir frá reynslu sinni á Íslandi í viðtali sem birt er á heimasíðu 131. sprengjuflugsveitar þjóðvarðliðs Missouri í Bandaríkjunum. Nálgast má viðtalið í heild sinni hér að neðan.

Eitthvað sem við gerum ekki oft

Þrátt fyrir krefjandi veðurskilyrði í Keflavík segir undirofurstinn sprengjuvélarnar hafa staðið sig sem skyldi. Ekki hafi þurft að fella niður eina einustu flugferð og þakkar hann viðhaldsteymi sveitarinnar fyrir vel unnin störf.

„Þetta er í fyrsta skipti sem B-2 fer í stöðuga leiðangra frá Íslandi. Það er því stór áfangi. Það var eldsneytistaka árið 2019. En að vera staðsettur hér í margar vikur, það er eitthvað sem við gerum ekki oft. Hér hafa ekki verið sprengjuflugvélar í langan tíma,“ segir hann og bætir við að flugsveitin hafi lært margt af veru sinni í Keflavík.

Árin 1994 til 2000 smíðuðu Bandaríkjamenn alls 21 B-2. Hver sprengjuflugvél kostar hátt í 100 milljarða króna. Síðan þá hafa þrjár þeirra skemmst. Ein fórst í flugtaki á kyrrahafseyjunni Guam árið 2008 og brann til kaldra kola. Önnur brotlenti í september síðastliðnum á Whiteman-herflugvelli í Missouri. Var vélin þá að koma inn til lendingar og hafnaði utan flugbrautar. Þriðja vélin til að skemmast brann að hluta í flugskýli og tók þrjú ár að gera hana upp.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka