Borgarráð samþykkti á fundi sínum nú á fimmtudag að veita heimild til þess að ganga frá uppgjöri um eignina Starhaga 1 sem áður var staðsett á Laugavegi 36.
Árið 2014 gerðu Reykjavíkurborg og Minjavernd samning um samvinnu við flutning, endurgerð og sölu hússins. Nú sjö árum síðar hefur húsinu verið komið fyrir á varanlegum stað á Starhaga 1 og það verið endurgert.
Heildarkostnaður verkefnisins hljóðar upp á rétt tæplega tvö hundruð milljónir og er mismunurinn milli kostnaðar og söluverðs hússins rúmar fimmtíu milljónir. Heildarhlutur og kostnaður Reykjavíkurborgar í verkefninu er þá rúmar 27 milljónir. Eins og áður segir var samþykkt í borgarráði að klára uppgjör við Minjavernd vegna verkefnisins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram bókun um málið. Þar segir meðal annars að „víðtæk samstaða“ hafi verið á sínum tíma um að endurgera húsið.
Slíkar framkvæmdir feli þó ávallt í sér óvissu sem „skýri það hvers vegna samið var um að deila hagnaði eða tapi eftir því hver niðurstaðan yrði“.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins en lögðu þó fram bókun. Þar var bent á að enn á ný væri viðgerðarkostnaður borgarinnar „gríðarlega hár“.
Fram kom einnig í bókuninni að kostnaðurinn væri vel á aðra milljón á hvern fermetra að meðtöldum lóðarkostnaði, sem væri mun hærri en kostnaður við nýbyggingu.