Enn óvissustig og skriðuhætta fyrir austan

Enn er hætta á skriðum á Seyðisfirði og óvissustig almannavarna …
Enn er hætta á skriðum á Seyðisfirði og óvissustig almannavarna er í gildi á svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissustig almannavarna er enn í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu en þar hefur rignt linnulaust undanfarna sólarhringa. Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is útlit fyrir úrkomu fram að hádegi á morgun.

„Spáin gerir ráð fyrir að það minnki úrkoman svona upp úr hádegi en það mun þó alls ekki stytta upp. Það mun rigna í allan dag og sennilegast fram að hádegi á morgun.“

Óli bendir þá einnig á að úrkoman sé búin að vera í formi slyddu og snjókomu til að mynda á Fjarðarheiði. Þetta muni þó sennilegast breytast upp úr hádegi þegar hlýnar ögn í veðri. „Það bætir ástandið ekki heldur,“ segir hann.

Þá telur hann líklegt að óvissustig almannavarna verði í gildi fram á morgun hið minnsta, enda taki ávallt tíma fyrir vatnið að renna úr jarðveginum.

Hann segist ekki hafa fengið tilkynningu um að fundur almannavarna og veðurstofunnar verði boðaður í dag en segist þó halda að einhverjir fundir verði haldnir.

Fylgjast vel með stöðunni á Seyðisfirði

Esther Hlíðar Jensen, skriðusérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hættuna á skriðum á svæðinu enn til staðar.

„Við erum helst að vakta svæðið á Seyðisfirði en þar er fleki eða hryggur raunar sem er brotinn upp og er á hreyfingu,“ segir Esther.

Um er að ræða opið skriðusár og því eðlilegt að athyglin sé að mestu leyti á því. Hún bendir þó á að fari úrkoma yfir ákveðið magn þá þurfi að beina athyglinni betur að fleiri svæðum. Sú staða sé þó ekki komin upp eins og er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka