Steinar Ingi Kolbeins
Einn mánuður er nú liðinn frá því kvika rann upp úr gígnum í Geldingadölum. Gosið hefur því í raun verið í dvala undanfarinn mánuð. Þrátt fyrir það gerir fólk sér enn ferð upp að gosstöðvunum, þó í minna mæli en áður.
Ferðamálastofa heldur utan um fjölda þeirra sem hafa gert sér ferð að gosstöðvunum frá því gosið hófst nú í vor. Samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu hafa í heildina 324.778 einstaklingar farið og séð gosið frá upphafi. Umferðin hefur því verið stöðug undanfarna mánuði.
Mest var umferðin í byrjun en fyrstu dagana voru að jafnaði rúmlega sex þúsund manns sem gerðu sér ferð daglega að gosstöðvunum.
Frá því kvika hætti að renna úr gígnum þann 18. september síðastliðinn fram að laugardeginum 16. október hafa 29.406 manns gert sér ferð að gosstöðvunum eða rétt rúmlega þúsund á dag.