Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn gefur lítið fyrir gagnrýni borgarstjóra á tillögu sjálfstæðismanna um uppbyggingu 3.000 íbúða. Hann segir í samtali við mbl.is að 10.000 íbúðir á glærum þýði jafn mikið og 100.000 íbúðir á glærum. Raunveruleikinn sé sá að það vanti íbúðir strax.
„Við létum gera nýja umferðargreiningu á því hverju borgarlínan skilar til að mynda í Ártúnsbrekku og það er bara ansi lítið. Sundabrautin hinsvegar kemur til með að breyta myndinni,“ segir Eyþór.
Umrædd umferðargreining muni vera kynnt samhliða tillögunni fyrir borgarstjórn á morgun.
Hann bendir einnig á að samkvæmt áætlunum muni Sundabrautin komast fyrr í gagnið.
„Borgarlínan kemur bæði seint og mun litlu skila.“
Eyþór segir fullyrðingar borgarstjóra um að Reykjavíkurborg ætli að byggja 10.000 íbúðir á komandi árum vera örvæntingarfulla fullyrðingu.
„Borgin er sjálf að rembast við að ná 1.000 íbúðum á ári og hefur yfirleitt ekki náð því. 10.000 eða 100.000 íbúðir á glærum skipta því einfaldlega ekki máli. Það sem skiptir máli er raunveruleikinn.“
Hann segir augljóst að ef að ætlunin sé að bíða í áratug eftir borgarlínu sem litlu muni skila „þá gerist það sem er að gerast. Fólkið flytur austur fyrir fjall vegna þess að það er ekki byggingarland í Reykjavík. Þetta er sú stefna sem er í dag, dreifing byggðar í boði Dags“.
Spurður út í þau ummæli borgarstjóra að ekki sé unnt að flýta uppbyggingu íbúðasvæða án þess að flýta framkvæmd borgarlínu þar sem öflugar almenningssamgöngur séu forsenda nýrra hverfa segir Eyþór borgarstjóra í raun á villigötum.
„Ef að borgarstjóri vildi raunverulega efla almenningssamgöngur þá myndi hann standa við þau loforð sem hann gaf fyrir rúmum tveimur árum, að tíðni ferða hjá strætó færi niður í sjö og hálfa mínútu og að fleiri vagnar væru keyptir.“
Hann segir staðreyndina vera þá að strætó hafi verið sveltur undir stjórn meirihlutans. „Þess vegna hefur strætó orðið lakari valkostur.“
Þá furðar hann sig einnig á fullyrðingum borgarstjóra um að áform séu um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á BSÍ reit.
„Miðað við það aðalskipulag sem á að gilda til 2040 og er lagt fram fyrir borgarstjórn á morgun, þá er ekki minnst einu orði á íbúðir á BSÍ-reit þar sem fjallað er um reitinn. Kannski hefur hann ekki lesið skjalið sem hann er að leggja fyrir borgarstjórn nægilega vel. Ég skal ekki segja til um það.“