Landspítalinn hefur ráðist í og hyggst ráðast í hinar ýmsu aðgerðir sem eru allar til þess fallnar að létta álagi af Landspítala, að því er segir í tilkynningu.
Ný 16 rýma endurhæfingardeild verður opnuð á Landakoti í byrjun nóvember og mun rýmum fjölga um 14 til viðbótar í febrúar. Auk þess verða níu líknarrými opnuð á Landakoti í lok þessa mánaðar en líknarrými hafa ekki verið rekin þar síðan árið 2011.
Sjúkrarýmum fjölgaði um samtals 20 við heilbrigðisstofnanirnar á Suðurlandi á Suðurnesjum í ágúst með það að markmiði að draga úr álagi á Landspítala. Segir einnig í tilkynningu að ráðist hafi verið í mörg önnur verkefni í þessu skyni, sum hver séu komin til framkvæmda en önnur í sjónmáli.
Þá voru 14 endurhæfingarrými opnuð á Reykjalundi í ágúst sem eru ætluð sjúklingum frá Landspítalanum. Auk þess hafa 18 rými verið opnuð tímabundin við nokkur hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu og í aðliggjandi heilbrigðisumdæmum. Eru rýmin skilgreind sem biðrými sem ætluð eru einstaklingum sem bíða eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimilum.
Kemur fram í tilkynningunni að samtals hafi því 52 legurými verið opnuð frá því í águst og eins og áður segir stendur til að opna samtals 30 rými á Landakoti.
„Þegar allt er talið fjölgar þannig legurýmum um 82 frá í ágúst og fram í febrúar næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur verið ákveðið að koma á fót allt að sex hágæslurýmum á Landspítala en tvö slík voru tekin í notkun fyrr í október. Slík rými eru ætluð sjúklingum sem eru veikari en svo að unnt sé að tryggja nægilegt eftirlit og meðferð á almennri bráðalegudeild.
Segir í tilkynningunni að í ágúst hafi heilbrigðisráðherra aukið fjármagn til SELMU, öldrunarteymis heimaþjónustu Reykjavíkurborgar, úr 200 milljónum króna í 450 milljónir króna á ársgrundvelli.
Mun þjónustan þá verða veitt alla daga vikunnar í stað þess að hún sé veitt aðeins virka daga og mun hún ná til alls höfuðborgarsvæðisins.
„Mat á þjónustu SELMU sem gert var í júní sl. leiddi í ljós að á starfstíma öldrunarteymisins hafði með aðkomu þess tekist að koma í veg fyrir 75 innlagnir á bráðamóttöku sem annars hefðu reynst óhjákvæmilegar,“ segir í tilkynningunni.
Ráðherra ákvað þá einnig í september að ráðstafa 100 milljónum króna samtals til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur. Jafnframt ráðstafaði ráðherra 200 milljónum króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu við aldraða í heimahúsum.
Þá gerðu heilbrigðisráðuneytið og Hafnarfjarðarbær með sér samning um endurbætur húsnæðis gamla Sólvangs fyrir öldrunarþjónustu fyrr á þessu ári. Þar verða 39 rými ætluð til skammtímadvalar fyrir aldraða. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 250 einstaklingum þessa þjónustu.
„Með því að fjölga rýmum víða í kerfinu, á spítalanum sjálfum og styðja við heimaþjónustu og heimahjúkrun er um að ræða styrkingu heilbrigðiskerfisins alls til lengri og skemmri tíma. Unnið er að fleiri verkefnum sem einnig munu koma Landspítala til góða, bæta þjónustu við sjúklinga og styrkja markmið um að veita rétta og tímanlega þjónustu á réttu þjónustustigi,“ segir í tilkynningu.