Lýst eftir vitnum að árás á Akureyri

Lögreglan á Norðurlandi eystra lýsir eftir vitnum að meintri líkamsárás sem átti sér stað á Akureyri, nánar tiltekið í Hafnarstræti, skammt frá pylsuvagninum um klukkan 00:45 aðfaranótt sunnudags.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að þar hafi maður á sextugsaldri verið að ræða við fjóra menn sem endaði með handalögmálum. Maðurinn á sextugsaldrinum lá eftir í götunni í kjölfarið en náði síðan að komast á brott.

„Lögreglan er með upptöku af meintri árás, þar sést meðal annars að eitthvað af fólki varð vitni að þessu atviki og óskum við eftir að ná tali af því. Lögreglan biður þá sem hafa upplýsingar um meinta líkamsárás að hafa samband við lögregluna í gegnum síma 444-2800, netfangið nordurland.eystra@logreglan.is eða senda einkaskilaboð hér á síðunni,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka