Segir mikilvægt að hugað sé að þjóðaröryggi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að hugað sé að þjóðar- og fjarskiptaöryggi í sölu fjarskiptafyrirtækisins Mílu til erlends sjóðastýringarfyrirtækis. Hún segir málið vera til umræðu á vettvangi þjóðaröryggisráðs en hún er sjálf með löggjöf í undirbúningi sem felur í sér rýni á erlendum fjárfestingum í mikilvægum innviðum landsins.

Síminn hf. tilkynnti að fyrirtækið hefði í dag skrifað undir samning við franskt sjóðastýringarfyrirtæki um einkaviðræður og skilmála í tengslum við möguleg kaup á Mílu ehf., dótturfélagi Símans. Segir í tilkynningunni að samningagerð sé langt komin og að fyrirhuguð viðskipti séu að fullu fjármögnuð.

Færi í samtal við fyrirtækið

Kjarnastarfsemi Mílu felst í uppbyggingu og rekstur innviða fjarskipta á landsvísu og eru kerfi fyrirtækisins grunnurinn að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um land allt. Ef af verður að kaupunum mun því stór hluti fjarskipta innviða Íslands færast í hendur á erlendum fjárfestingaraðilum.

„Það var ákveðið á vettvangi ríkisstjórnar að samgönguráðherra myndi fara í samtal við fyrirtækið til að tryggja það að þessir hagsmunir, það er að segja þjóðaröryggi og almannaöryggi, verði ávallt tryggðir óháð eignarhaldi,“ segir forsætisráðherrann í samtali við mbl.is.

Einkavæðingin umdeild ákvörðun

Að sögn Katrínar hafa kaupin verið til umræðu hjá þjóðaröryggisráði og hefur Síminn gert vel í að halda ráðinu upplýstu um framvindu þess.

„Auðvitað var það mjög umdeild ákvörðun á sínum tíma þegar grunnnetið var einkavætt og auðvitað var minn flokkur á móti því. En það hefur verið í einkaeigu síðan og það er bara staðan sem við stöndum frammi fyrir. Það er okkar hlutverk núna að tryggja það einmitt að fjarskiptaöryggi, og um leið þjóðaröryggi, sér tryggt óháð eignarhaldi. Það er lykilatriði.

Það var kannski ekki alveg fyrirséð hversu mikilvægir svona innviðir yrðu á sínum tíma en núna með tækniþróun og öðru er þetta bara orðið lykilatriði fyrir almannaöryggi í hverju samfélagi,“ segir forsætisráðherrann.

Hafið þið verið meðvituð um þetta?

„Já, fyrirtækið hefur haldið okkur algjörlega upplýstum um þetta.“

Undirbýr löggjöf um rýni í erlendum fjárfestingum

Að sögn Katrínar er hún með í undirbúningi löggjöf sem kveður á um rýni á erlendum fjárfestingum í mikilvægum innviðum sem hún stefnir á að leggja fram á komandi þingvetri. Byggir frumvarpið á reynslu annarra Norðurlandaþjóða en Danmörk og Noregur hafa nú þegar sett slíkar reglur. Þá hefur Svíþjóð verið með slíkar reglur í undirbúningi.

„Þegar við verðum vonandi komin með löggjöf þá verðum við með skilgreinda ferla, hvað gerist og hvaða rýni mun þurfa að fara fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert