300 sprengjusérfræðingar á æfingu hér á landi

Meðlimur séraðgerðasveitarinnar.
Meðlimur séraðgerðasveitarinnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Northern Challenge, árleg æfing sprengjusérfræðinga, hófst formlega á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í dag og stendur fram í næstu viku. Um er að ræða alþjóðlega æfingu Atlantshafsbandalagsins sem Landhelgisgæslan hefur veg og vanda af.

Æfingin fer að stærstum hluta fram á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og er þetta í tuttugasta sinn sem hún er haldin.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að markmið æfingarinnar sé að æfa viðbrögð við hryðjuverkum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Verkefni sprengjusérfræðinganna er að leysa slíkan vanda. Samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim er útbúinn og aðstæður hafðar eins raunverulegar og kostur er.

Æfingin fer fram við fjölbreyttar aðstæður, t.d. á flugvelli, í höfn, í skipi og við bryggju. Sérhæfð stjórnstöð er jafnframt virkjuð þar sem öll uppsetning og vinnubrögð eru samkvæmt alþjóðlegu vinnulagi Atlantshafsbandalagsins.

Ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga í Evrópu

Í tilkynningunni segir einnig að æfingin veitir sprengjusérfræðingum, sem koma hvaðanæva að úr heiminum, einstakt tækifæri til að samhæfa aðgerðir auk þess að miðla reynslu og þekkingu sinni til annarra liða.

Northern Challenge hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga í Evrópu.

Að þessu sinni eru þátttakendurnir frá 15 þjóðum og alls eru 30 lið skráð til leiks. Þeir sem koma lengst að eru frá Nýja-Sjálandi en að æfingunni koma hátt í 300 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka