Sex af hverjum tíu stelpum í 10. bekk hafa verið beðnar um ögrandi mynd eða nektarmynd. Þá hafa tæplega 20% stúlkna á aldrinum 15 til 17 ára lent í því að þess konar myndefni af þeim hafi farið í dreifingu í óþökk þeirra.
Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, segir aðgengi barna á netinu berskjalda þau fyrir ókunnugum einstaklingum sem geti nálgast þau. Kveðst hún vita til þess að 11 til 13 ára börn hafi verið beðin um kynferðislegar myndir af sjálfu sér.
Kolbrún segir að bæði séu til dæmi um að börn séu að brjóta á hvort öðru og að fullorðnir einstaklingar brjóti á börnum. Er þá töluvert algengara að stúlkur lendi í þessu í samanburði við stráka, þó bæði þekkist.
Börnum hefur þá einnig verið greitt fyrir kynferðislegar myndir, oft í gegnum greiðsluforritið Aur. Nektarmyndasala er þó afar varhugaverð en Kolbrún kveðst hafa fengið til sín mörg mál þar sem slík mál hafa endað í hótunum. Þekkist þá til þess að börnum sé hótað um að myndir af þeim fari í dreifingu, jafnvel á foreldra og ættingja, ef þau sendi ekki grófara efni.
Bylgja Baldursdóttir hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar segir að þessum málum hafi farið fjölgandi á borði lögreglu. Er hún þá ekki viss hvort það sé í beinum tengslum við fjölgun brota eða hvort að lagabreytingar og ástandið í samfélaginu hafi leitt til þess að þau endi frekar hjá lögreglu en áður.
Að sögn Bylgju eru gerendurnir oft ekki meðvitaður um alvarleika brotsins sem þeir eru að fremja þegar þeir annað hvort biðja um myndirnar eða dreifa þeim. Getur þá fylgt mikil afneitun og skömm þegar gerandinn áttar sig loks á afleiðingum verknaðarins, þá aðallega að vera orðinn glæpamaður.