„Þetta er einn af þeim kostum sem ég lagði upp með, að gera þetta í áföngum, og mér sýnist að það hafi orðið fyrir valinu hjá ráðherra að gera það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að ráðist verður í fulla aflétting á sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda í tveimur skrefum frá og með miðnætti í kvöld.
Fyrra skrefið, sem tekur gildi að miðnætti felur í sér að almenn fjöldatakmörk fari úr 500 manns í 2000, grímuskyldu verði aflétt og opnunartímar skemmtistaða lengist um klukkutíma og verður skráningaskyldu gesta aflétt.
Áfram mun regla um nándarmörk miðast við einn metra.
„Þetta er ákvörðun sem að þau taka og mér skilst að þetta sé náttúrulega líka með þeim fyrirvara að við lendum ekki í einhverjum vandræðum eða að eitthvað geti gerst, eins og alltaf hefur verið talað um,“ segir Þórólfur spurður hvernig honum litist á að aflétta í tveimur skrefum.
„Það má náttúrulega segja að eftir þetta skref, sem er tekið núna, er kannski ekki mikið eftir í afléttingum. Þannig að það er kannski eðlilegt framhald. Þetta er í takti við það sem að ég var að reifa í mínu minnisblaði, þannig að það er ekkert sem að hefur kannski komið að óvart í sjálfu sér.“
Í minnisblaði sínu gerði Þórólfur tillögu um að fjöldatakmörk yrðu færð upp í 1.000 til 2.000 manns. Spurður hvort að hann hefði frekar viljað sjá fjöldamörkin nærri eitt þúsund manns segir hann að það sé smekksatriði.
„Ég veit ekki hver munurinn er á eitt og tvö þúsund í raun og veru er, en ég held að þetta snúist náttúrulega mjög mikið um það hvernig fólk hegðar sér sem einstaklingar,“ segir hann og vísar til persónubundinna sóttvarna.
„Það vita allir hvað þeir þurfa að gera til þess að koma í veg fyrir smit, það er náttúrulega ef að við erum með einkenni að vera ekki að fara um allt og umgangast mjög marga og alls ekki viðkvæma einstaklinga.“
„Svo er náttúrulega bara þetta hreinlæti og að passa upp á nándarreglu þó svo að hún sé frjálslegri núna en áður. Þetta eru svona þessar gömlu góðu reglur sem skipta alveg höfuðmáli sem fólk þarf að huga að en kannski að fólk er farið að gleyma því svolítið en ég bara þreytist ekki á að minnast á það.“