Maðurinn sem handtekinn var í gær eftir vopnað rán í apóteki í Vallakór var yfirheyrður nú í hádeginu. Þóra Jónsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að lögreglan telji málið upplýst og reiknar ekki með að farið verði fram á áframhaldandi gæslu yfir manninum.
Þóra staðfestir við mbl.is að maðurinn sé á tvítugsaldri, en þó yfir lögaldri.
Maðurinn mætti í apótek Apótekarans í Vallakór í gær um hálfeitt og ógnaði starfsfólki með dúkahníf og hafði á brott með sér lyf. Var hans leitað, en upp úr klukkan fjögur hafði lögreglan haft hendur í hári hans. Engan sakaði í ráninu.