Full aflétting í tveimur skrefum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi rétt í þessu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi rétt í þessu. mbl.is/Unnur Karen

Ráðist verður í fulla aflétting á sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda í tveimur skrefum frá og með miðnætti í kvöld.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að ríkisstjórnarfuni loknum rétt í þessu.

Áfram miðað við einn metra

Fyrra skrefið, sem tekur gildi að miðnætti felur í sér að almenn fjöldatakmörk fari úr 500 manns í 2000, grímuskyldu verði aflétt og opnunartímar skemmtistaða lengist um klukkutíma og verður skráningaskyldu gesta aflétt. 

Áfram mun regla um nándarmörk miðast við einn metra.

Seinna skrefið eftir fjórar vikur

„Síðan gerum við ráð fyrir, að öllu óbreyttu og ef allt gengur vel, með þessum fyrirvörum sem við þekkjum orðið mjög vel, að um fulla afléttingu verði að ræða eftir fjórar vikur,“ sagði Svandís. 

Hún sagði reynsluna af afléttingu í skrefum góða og skynsamlegt beita henni. 

„Þetta er nánast full aflétting og mjög lítið sem stendur út af þegar þetta hefur verið gert,“ sagði Svandís. 

Gert er ráð fyrir að áfram verði beitt sýnatöku, einangrun, smitrakningu og sóttkví en þessi atriði verði þó endurskoðuð í samráði við sóttvarnalækni.  

Breytingar frá og með 20. október samkvæmt tilkynningu stjórnarráðsins:

  • Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
  • Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
  • Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
  • Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
  • Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
  • Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert