Stærsti kröfuhafinn í þrotabú og jafnframt sá sem fór fram á gjaldþrot Magnúsar Ólafs Garðarssonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United silicon, er þrotabú Sameinaðs sílikons, rekstrarfélag kísilverksmiðjunnar.
Fyrr í dag var greint frá því að dómstóll í Danmörku hefði samþykkt gjaldþrotakröfu og úrskurðað Magnús gjaldþrota, en hann er með skráð lögheimili þar í landi.
Danskur gjaldþrotaréttur er um marg svipaður því sem gerist hér á landi. Eftir að dómstóll hefur samþykkt gjaldþrotakröfu er skipaður skiptastjóri sem svo auglýsir gjaldþrotið og óskar eftir að kröfuhafar lýsi kröfum í búið. Er gefinn frestur upp á fjórar vikur til þess, en í raun hægt að lýsa kröfum í lengri tíma meðan vinna við búið er í gangi.
Preben Jakobsen, skiptastjóri í búi Magnúsar, staðfestir í samtali við mbl.is að stærsta krafan í búið sé frá Sameinuðu sílikoni ehf. Þá staðfestir hann jafnframt að Magnús hafi mætt fyrir dóm í Danmörku þegar gjaldþrotið var tekið fyrir. „Við erum enn að safna upplýsingum og kröfum og fá yfirsýn,“ segir Jakobsen, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um einstaka atriði tengd gjaldþrotinu.
Geir Gestsson, skiptastjóri Sameinaðs sílikons ehf. hér á landi, staðfestir við mbl.is að um sé að ræða kröfu vegna dómsmáls sem félagið höfðaði gegn Magnúsi og var dæmt að honum fjarstöddum. Hafði Magnús þá ekki skilað greinargerð og ekki sótt aðalmeðferð málsins og var dæmdur til að greiða kröfu búsins upp á 1,2 milljarða í höfuðstól, en Geir segir að sú krafa með vöxtum sé í dag um 1,8 milljarðar. Magnús óskaði síðar eftir endurupptöku málsins sem var hafnað af héraðsdómi.
Þrotabú Sameinaðs sílikons hefur einnig höfðað tvö önnur mál gegn Magnúsi vegna meintra fjársvika, en þau eru samtals upp á um 4,5 milljónir evra. Tengjast málin bæði samskiptum Magnúsar við suður-afríska félagið Tenova Minerals sem keypti bræðsluofn verksmiðjunnar.