Hryggurinn á milli skriðusársins og Búðarár, fyrir ofan byggðina í Seyðisfirði, hreyfðist meira síðustu tvo daga á sama tíma og úrkoma mældist samanlögð 85 millimetrar.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem birt var á sjöunda tímanum í kvöld. Hún hefur ekki verið send fjölmiðlum.
Tekið er fram að fulltrúar Veðurstofu, almannavarna og Múlaþings hafi fundað í dag vegna rigninga síðustu daga á Seyðisfirði. Henni hafi nú slotað en numið samtals 85 mm frá því á sunnudag, eins og áður sagði.
„Mælingar á speglum í hlíðinni sýna að það herti aðeins á hreyfingunni við úrkomuna eins og við mátti búast. Hreyfingin er sem fyrr eingöngu í hrygg milli stóra skriðusársins frá í desember 2020 og Búðarár,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að mælar hafi sýnt nokkuð stöðuga hreyfingu á hryggnum frá 2. október.
„Hún hefur verið mismunandi eftir speglum og eins hafa speglarnir farið í mismunandi áttir. Ekki er talið að hryggurinn sé eitt stykki heldur mörg og líkur því á að hann fari niður í nokkrum brotum og á mismunandi tímum,“ segir í tilkynningunni.
Vatnsborð hafi hækkað lítillega í holum meðan á rigningu stóð en óverulega. Gert er ráð fyrir að vatnsborð fari nú lækkandi aftur þegar rigningu hefur slotað.
Að sama skapi er gert ráð fyrir kólnandi veðri á næstunni og snjókomu.
„Sem fyrr mun aukin hreyfing á hryggnum þýða að umferð neðan við skriðufarveginn, á Hafnargötu við Búðará, verði stöðvuð í öryggisskyni. Þá verða húsin fimm næst leiðigörðunum rýmd gefi mælar vísbendingu um að allur hryggurinn fari í einu. Vel er fylgst með mælum í hlíðum ofan Seyðisfjarðar og viðeigandi ráðstafanir gerðar þyki ástæða til,“ skrifa almannavarnir.
Áfram verði aðgæsla vegna umferðar á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum, svo sem á Hafnargötu við Búðará og utan við Múla.
Tekið er fram að enn sé í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði. Unnið sé að efldri skráningu allra íbúa á B- og C-svæði.
„Íbúar á þeim svæðum geta því átt von á að haft verði samband við þá innan skamms. Minnt er á rýmingarspjöld með leiðbeiningum sem dreift var í öll hús á Seyðisfirði í vor og eru íbúar hvattir til að hafa þau til reiðu.“