Ungi maðurinn sem handtekinn var í gær vegna hnífstunguárásar við Breiðholtslaug var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag. Vegna ungs aldurs er hann hins vegar ekki vistaður í gæsluvarðhaldsfangelsi.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Bæði gerandi og þolandi í málinu eru undir lögaldri. Þeir sem eru undir 18 ára aldri eru skilgreindir sem börn, en þeir sem eru yfir 15 ára eru skilgreindir sem sakhæfir.
Grímur segir að aðeins sá handtekni sé með stöðu sakbornings í málinu. Hann segir málið ekki að fullu upplýst enn þá og það sé ástæða þess að krafist hafi verið varðhalds. Yfirheyrslur hafa staðið yfir í dag.
Í gær var greint frá því að sá sem fyrir árásinni varð væri kominn úr aðgerð og að hún hafi gengið vel. Grímur segir að svo virðist vera sem þolandinn muni komast ágætlega frá árásinni og staðfestir að hann sé með meðvitund.