Á morgun, miðvikudaginn 20. október, verður hreinsistöð skólps við Ánanaust tekin úr rekstri vegna viðhalds. Stöðin verður óstarfhæf í um það bil þrjár vikur og á meðan verður skólpið grófhreinsað áður en því er veitt í sjó. Kólígerlamagn verður hærra en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir meðan á aðgerðinni stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Grófhreinsun skólps felur í sér að allt rusl er fjarlægt úr því áður en það yfirgefur hreinsistöðina. Með því er komið í veg fyrir að fast efni endi í sjó og fjörum við borgina. Veitur munu engu að síður láta fylgjast reglulega með ástandinu í fjörunum á meðan á lokuninni stendur og hreinsa þær ef á þarf að halda.
Skipta þarf um svokallað „trompet“ í hreinsistöðinni en það er nokkurs konar safnlögn þar sem straumar þriggja útrásardæla stöðvarinnar sameinast í einn djúpt í iðrum stöðvarinnar. Frá trompetinu er hreinsuðu skólpi dælt um 4 km út á Faxaflóa þar sem sjórinn tekur við því og brýtur niður lífrænu efnin. Trompetið er því síðasti viðkomustaður fráveituvatnsins áður en það yfirgefur hreinsimannvirkið.
Undanfarna mánuði hafa komið lekar að trompetinu og hafa verið gerðar tilraunir til að bæta það en árangur hefur verið takmarkaður. Því var tekin ákvörðun um að skipta því út fyrir nýtt og hafinn undirbúningur og hönnun á nýju stykki auk innkaupa á öðrum tengdum búnaði, svo sem lokum og þönum. Þar sem þetta er afar stór og flókinn búnaður hefur hönnun hans reynst tímafrek og smíðin krefjandi auk þess sem erfitt hefur reynst að útvega efni.
Trompetið er í grunninn ryðfrí stálpípa, um 10 m löng, 1200mm að þvermáli og vegur samansett um 1,5 tonn. Fjarlægja þarf það um lúgu í lofti rýmisins. Að því loknu verður nýja trompetinu komið fyrir og það tengt dælum í þröngum og krefjandi aðstæðum.