Rótarý á Íslandi hlaut nýverið styrk frá Alþjóðlega rótarýsjóðnum til þess að ráðast í samstarf með félagasamtökunum Pudiyador Charitable Trust í Indlandi.
Verkefninu er ætlað að stuðla að því að brúa bilið í námsgetu þeirra barna sem hafa aðgang að einkaskólum og þar með kennslu við tölvur og þeirra sem sækja opinbera skóla og hafa ekki haft tækifæri á kennslu með tölvubúnaði. Framlagið felst í tölvum og spjaldtölvum fyrir bæði kennara og nemendur allt frá leikskólaaldri til táningsaldurs í Chennai í Indlandi.
Bala Kamallakharan, félagi í Rótarý Reykjavík International, segir að bilið á milli barna sem sækja opinbera menntun frá fátækari fjölskyldum og þeirra sem sækja einkarekna skóla mikið og að það hafi veruleg áhrif færni og þroska barna og ýti undir frekari stéttaskiptingu.
Málefnið sé honum sérstaklega hugleikið þar sem Bala er sjálfur frá einu af hverfunum þar sem Pudiyador heldur úti starfsemi í Chennai.
„Við höfum séð tæknina kalla fram ofurkrafta jafnvel í börnum sem koma frá mjög fátækum heimilum,“ segir Bala í samtali við Morgunblaðið.
„Samstarfsaðili okkar Pudiyador hefur unnið að brúa þetta bil í gegnum leikskóla, grunnskóla fyrir börn og unglinga auk þess sem félagið bíður upp á yfirgripsmikla fullorðinsfræðslu í tveimur hverfum; Besant Nagar og Ramapuram. Í þeim hverfum býr fólk af Irula-þjóðflokki og farandverkafólk. Mikið er um að fólk í þessum hverfum vinni láglaunastörf á borð við þjónustufólk á heimilum og bílstjórar,“ segir Bala.
„Samfélagið sem um ræðir er dreifbýlt þar sem í gegnum tíðina hafa verið rottuveiðimenn en í dag er þar mikið af fólki sem tínir og fer í gegnum rusl í leit að endurvinnanlegum efnivið,“ bætir hann við til að benda á að fólkið á svæðinu er í lægstu tekjuhópunum.
Hann segir að frá því að heimsfaraldurinn skall á hafa börn í opinberum skólum ekki getað mætt í skóla, aðeins einkaskólar hafi verið opnir.
„Einkaskólarnir hafa allir tileinkað sér tæknina við að halda starfi sínu áfram. Opinberir skólar hafa orðið út undan. Börn sem koma frá fátækari fjölskyldum hafa því ekki getað sótt menntun þar sem engin tæki eru í boði fyrir þau. Styrkþegar okkar hafa ekki haft aðgang að tækjum og óttast að falla enn lengra aftur úr. Þess vegna reynum við að valdefla þau til þess að læra á tækni.“
Auk þess segir Bala að tækin komi sér áfram vel, þó svo að heimsfaraldur líði hjá. Fyrsta skrefið sé að þjálfa kennara við kennslu á tækjunum. Ætlunin er svo að hvert barn fái eigið tæki, með því sé hægt að koma í veg fyrir stöðnun eða jafnvel afturför í námi barnanna þegar kemur að því að þau geti snúið sér aftur að skóla sem og aukið þekkingu og sjálfstraust barnanna til að halda áfram í námi.
Bala segir mikla ánægju með verkefnið, og stuðning Rótarý Íslands þar sem allir Rótarý klúbbar á landinu lögðu verkefninu lið. Heildarfjárhæð styrksins nemur rúmum 38 þúsund bandaríkjadölum sem samsvarar um 50 milljónum króna.