Fengu engar upplýsingar frá lögreglu um sektir

Úr vettvangsferð kjörbréfanefndar í Borgarnesi í gær.
Úr vettvangsferð kjörbréfanefndar í Borgarnesi í gær. mbl.is/Theódór Kr. Ólafsson

Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar alþingis, segir nefndina hafa kallað eftir viðbótarupplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi vestra í dag í kjölfar frétta af sektargerð gagnvart yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis.

„Við höfum ekki fengið í hendur þau sektarboð sem lögreglan hefur afhent kjörstjórnarmönnum í yfirkjörstjórn en höfum óskað eftir því í dag að fá upplýsingar frá lögreglunni til viðbótar því sem við fengum fyrir helgi. Þar á meðal um þetta,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Birgir Ármannsson formaður kjörbréfanefndar í vettvangsferð á Borgarnesi í gær.
Birgir Ármannsson formaður kjörbréfanefndar í vettvangsferð á Borgarnesi í gær. mbl.is/Theódór Kr. Ólafsson

Hefur ekki bein áhrif

Hann segir fregnir dagsins ekki hafa bein áhrif á rannsókn kjörbréfanefndar:

„Við erum auðvitað að vinna í því að safna upplýsingum um atvik og aðstæður sem varða talninguna í Borgarnesi og öll gögn og allar upplýsingar sem fram koma hjálpa okkur til þess að gefa okkur skýra heildarmynd af því sem þar fór fram. Gögn frá lögreglunni eru mjög hjálpleg en við erum auðvitað að afla okkur annarra gagna líka auk skriflegra gagna sem varða störf yfirkjörstjórnar, talningu og þess háttar.“

Birgir segir allar upplýsingar varða við kjörbréfanefndina þó áherslur hennar kunni að vera frábrugðnar áherslum lögreglunnar: „Við erum auðvitað að skoða málið frá breiðara sjónarhorni og þurfum líka að afla annarra upplýsinga.“

Nefndin var á fundi í morgun þegar fréttirnar af sektarboðinu bárust og þá ákvað hún að óska eftir viðbótarupplýsingum frá lögreglunni af því tilefni.

Birgir vildi ekki tjá sig um áhrif þessa máls á rannsókn nefndarinnar:

„Við erum að viða að okkur gögnum og þegar við höfum náð að safna því saman sem við teljum að þurfi til þess að varpa nægilega skýru ljósi á aðstæður og atvik þá förum við í það mat sem okkur er falið að undirbúa fyrir kjörbréfanefnd þingsins og þingið í heild. Þá vinnum við á grundvelli kosningalaga og laga um þingsköp alþingis.“

Af fyrsta fundi undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar.
Af fyrsta fundi undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa þegar birt gögn og munu birta fleiri

Karl Gauti Hjaltason krafðist þess að kjörbréfanefnd myndi birta öll gögn sem hún hefði til rannsóknar en Birgir segir það vera á áætlun hjá nefndinni:

„Við höfum birt gögn á vefsíðu Alþingis, þar á meðal þau svör sem lögreglan sendi fyrir helgi og svör yfirkjörstjórna við fyrirspurnum okkar. Það stendur til af okkar hálfu að birta öll gögn sem við höfum fengið í hendur um þetta mál sem eru ekki bundin sérstökum trúnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka