Gjaldið á að endurspegla „raunkostnað“

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts. Ljósmynd/Pósturinn

Verðskrá Íslandspósts mun taka breytingum þann 1. nóvember til að koma til móts við ný lög sem kveða á um að gjald  endurspegli raunkostnað. Gjaldskrá mun því hækka á einhverjum stöðum en lækka á öðrum. Má búast við því að hækkanirnar lendi fyrst og fremst á landsbyggðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu Íslandspósts.

Verðbreytingarnar sem um ræðir munu aðeins eiga við um sendingar á fjölpósti og á pökkum undir 10 kg. Áfram verður heimilt að viðhafa samrýmda verðskrá á bréfum undir 51 grammi.

Tekið mið af raunkostnaði

Eldri lög kváðu á um eitt verð fyrir landið allt. Sendandi greiddi því sama verð, óháð staðsetningu hans eða móttakanda. Útfærsla þeirra laga fól því í sér að ríkissjóður myndi niðurgreiða hluta sendingarkostnaðar til að koma til móts við viðskiptavini á strjálbýlli svæðum.

Nýju lögin kveða aftur á móti á um að kostnaður við sendingu pakka undir 10 kg endurspegli kostnað við flutning og mun ríkið hætta niðurgreiðslum á slíkum sendingum. Þá tekur einnig gildi ný verðskrá fyrir fjölpóst þar sem mið er tekið af raunkostnaði.

„Fjölpóstur hefur í gegnum tíðina fengið að fljóta með öðrum bréfasendingum sem varð til þess að viðbótarkostnaður við þessa dreifingu var óverulegur þar sem bréfin báru mestan hluta kostnaðar. Vegna fækkunar á bréfum hefur Pósturinn nú viðkomu á mun færri stöðum vegna, fjölpóstur kallar hins vegar á viðkomu á hverjum stað og hefur raunkostnaður við dreifingu hans því aukist. Ný verðskrá fyrir fjölpóst tekur mið að þessum breytingu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka