Hagnaður Haga var 1,7 milljarðar króna

Finnur Oddsson forstjóri Haga hf.
Finnur Oddsson forstjóri Haga hf. mbl.is

Hagnaður verslunarfyrirtækisins Haga á öðrum fjórðungi ársins nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Hagnaðurinn eykst um 23% milli tímabila en á sama tíma á síðasta ári hagnaðist félagið um rúmlega 1,3 milljarða króna.

Ánægð með starfsemina

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í tilkynningu að rekstur Haga á öðrum fjórðungi hafi gengið vel. Tekjur hafi verið tæplega 35 milljarðar króna og hafi aukist um 13% miðað við sama tímabil í fyrra. „Afkoma á fjórðungnum batnaði á milli ára, en EBITDA nam 3.263 millj. kr. og hagnaður 1.709 millj. kr., sem er um 30% aukning. Við erum ánægð með starfsemi félagsins á fyrri helming rekstrarárs, sérstaklega töluverða tekjuaukningu og aukinn hagnað, sem nam 2.436 millj. kr. á tímabilinu í samanburði við 1.225 millj. kr. í fyrra,“ segir Finnur sem skýrir hagnað á fyrri árshelmingi með bættri afkomu hjá öllum helstu rekstrareiningum félagsins, þ.e. Bónus, Hagkaupi og Olís.

Finnur segir í tilkynningunni að horfur í rekstri Haga séu áfram góðar og dregið hafi úr neikvæðum áhrifum vegna Covid-19. Þá segir hann að gert sé ráð fyrir að eftirspurn á eldsneytismarkaði muni halda áfram að aukast með auknum umsvifum og ferðamannastraumi. Þá er gert ráð fyrir að spurn eftir dagvöru verði nokkuð stöðug.

Eignir Haga námu í lok tímabilsins sem lauk í ágúst, tæplega 64,4 milljörðum króna en þær voru 61,7 milljarðar króna í lok síðasta uppgjörsárs. Breytingin nemur 4,4%.

Eigið fé fyrirtækisins er nú rúmir tuttugu og sex milljarðar en það var rúmlega 25 milljarðar í lok síðasta uppgjörsárs. Eiginfjárhlutfall félagsins er 40,7%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka