Ókeypis ensk-íslensk orðabók væntanleg

Ensk-íslensk orðabók í hinni sígildu bókarútgáfu.
Ensk-íslensk orðabók í hinni sígildu bókarútgáfu. mbl.is/Frikki

Ný ensk-íslensk orðabók mun líta dagsins ljós á vefnum wordreference.com á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember næstkomandi. Orðabókin er afrakstur þrotlausrar vinnu sjálfboðaliða og verður hún fyrst sinnar tegundar hér á landi til að standa almenningi opin án endurgjalds.

Sigurður Hermannsson, kennari og forsvarsmaður verkefnisins, segir mikla vöntun hafa verið á orðabók af þessu tagi og furðar sig á að því að ein slík hafi ekki verið gefin út fyrr.

„Ég kenni íslensku sem annað mál og mér leið bara kjánalega þegar nemendur spurðu mig hvaða orðabók þeir gætu notað og ég þurfti að benda þeim á Google Translate. Það eru alveg til aðrar orðabækur en aðgangur að þeim ýmist kostar eða þá að þær eru fullar af vélarvillum. Þannig að það vantaði bara góðar orðabækur á markaðinn.“

Margra klukkutíma vinna að baki

Tilganginn með útgáfu bókarinnar segir hann bæði vera að hjálpa Íslendingum við enskuþýðingar og að styðja betur útlendinga sem eru að læra íslensku. Við gerð bókarinnar hafi um 85 sjálfboðaliðar setið klukkutímum saman við að þýða orð úr risastórum gagnagrunni frá vefnum Word Reference, að sögn Sigurðar.

Sigurður Hermannsson.
Sigurður Hermannsson. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er fólk með alls konar bakgrunn. Kennarar, húsmæður, verkfræðingar, þýðendur. Í svona verkefni er þó mikilvægt að gæðastjórnunarferlið sé sterkt þannig að það er tungumálamenntað fólk sem fer yfir hverja einustu þýðingu til að passa að allt sé pottþétt.“

Sigurður segir það einlægum áhuga og vilja sjálfboðaliðanna til þátttöku að þakka hve stuttan tíma það hefur tekið að klára verkið.

„Við byrjuðum á þessu af alvöru í desember í fyrra þannig að þetta er minna en ár. Á skala orðabóka er þetta eins og Usain Bolt fengi að hlaupa með rakettu. Það er ótrúlegt hvað þetta hefur gengið hratt og vel. Ég get bara þakkað samfélaginu fyrir það. Sjálfboðaliðarnir hafa staðið sig eins og algerar hetjur síðastliðna mánuði.“

Hópurinn stefnir svo að því að opna íslensk-enska hluta orðabókarinnar á Degi íslenskrar tungu að ári en til að það takist þurfi allar hendur upp á dekk, að sögn Sigurðar.

„Ég hvet alla sem hafa tök á að slást í Facebook-hópinn Orðbæklingar og vera með okkur í næstu skrefum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert