Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur boðið yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi að greiða sektir vegna ógætilegrar meðferðar kjörseðla í kjölfar þingkosninganna í síðasta mánuði.
Þegar mbl.is spurði Inga Tryggvason, formann yfirkjörstjórnarinnar, hvort hann gæti staðfest þetta vildi hann ekkert tjá sig um málið.
Í frétt RÚV segir að hann hafi fengið hæstu sektargerðina, 250 þúsund krónur. Aðrir stjórnarmenn hafi fengið vægari sektargerðir, 150 þúsund krónur. Kjörgögn í Norðvesturkjördæmi voru ekki innsigluð og er það forsenda sektargerðanna, að því er segir í fréttinni.
Fallist stjórnarmenn ekki á að greiða sektina færi málið að öllum líkindum fyrir ákærusvið og málið gæti því endað fyrir dómstólum.
Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, kærði niðurstöður kosninganna eftir að hann datt út af þingi sem jöfnunarþingmaður þegar atkvæði í kjördæminu voru talin aftur.
Lögregla hefur nú lokið rannsókn sinni á málinu og urðu sektargerðir niðurstöður hennar.
Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, svaraði ekki símtölum mbl.is fyrr í dag og starfsmaður í móttöku lögregluembættisins sagði að Gunnar yrði á fundi „í allan dag“.
mbl.is hefur sömuleiðis fengið staðfest eftir sínum heimildamönnum að allir fimm meðlimir yfirkjörstjórnar hafi fengið sektargerð.