Sjö smitrakningar á tæpum átta vikum

Mörg smit hafa komið upp í Norðlingaskóla síðustu vikur og …
Mörg smit hafa komið upp í Norðlingaskóla síðustu vikur og börn ítrekað send í sóttkví. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Í Norðlingaskóla hefur sjö sinnum verið farið í smitrakningar vegna Covid-smita á tæplega átta vikum og í einstaka tilfellum hafa sömu börnin þurft að fara í sóttkví tvisvar eða þrisvar.

„Þetta stingur sér niður í einstaka árgöngum. Við höfum verið með þetta frá þriðja og upp í sjöunda bekk. Nú er þetta aðallega frá þriðja og upp í sjötta bekk. Þannig að hópar innan hvers árgangs eru að fara ásamt einhverjum öðrum sem blandast við. Það er alltaf einhver skörun,“ segir Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Norðlingaskóla.

Meiri áskoranir nú

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sagði í fréttum RÚV í morgun að hann teldi stöðuna í skólum nú að mörgu leyti erfiðari að eiga við, en á fyrri stigum faraldursins.

Aðalbjörg tekur undir orð Helga og segist upplifa umtalsvert meiri áskoranir í kringum smitrakningar vegna Covid nú heldur en á síðastliðnu ári.

„Það er misjafnt hvernig þetta lendir á skólununum og í skólanum. Við í skólahverfinu 110 fengum töluvert af smitum í september. Það voru allir skólarnir að glíma við það. Það var svolítið í þriðja og fjórða bekk. Svo höfum við í Norðlingaskóla núna verið að taka smitrakningar sem tengjast miðstigi og þetta hefur hitt okkur illa eins og nokkra aðra skóla. Við finnum töluvert meira fyrir þessu heldur en var í fyrra.“

Hólfaskipting í skólum dugir skammt

Aðalbjörg segir að reynt sé að halda úti óskertu skólastarfi en á sama tíma passa upp á blöndun og að halda uppi mjög kröftugum sóttvörnum. Í Norðlingaskóla er fyrsta og öðrum bekk til að mynda ekki blandað við þriðja og fjórða bekk, þá er miðstigið sér og svo unglingastigið.

„En við erum líka að glíma við að krakkarnir eru í tómstunda- og íþróttastarfi. Þau fara íþróttastarf þar sem þau blandast alveg þvert á það sem sem er að gerast í skólanum og þau blandast líka við aðra skóla í íþróttahreyfingunni. Þau eru líka þvert á ýmsa hópa eftir skóla saman og í félagsmiðstöðinni. Þannig hólfaskiptingar í skóla duga skammt í stóra samhenginu. Það er mjög mikil blöndun þó við í skólunum séum að halda þessu eins afmörkuðu og hægt er án þess að skerða skólastarf.“

Skæð haustflensa flækir málin

Þá bendir Aðalbjörg á að skæð haustflensa sé að ganga sem bitnar bæði á nemendum og starfsmönnum og stundum þurfi að grípa til þess að blanda saman hópum til að halda úti óskertu skólastarfi. Það hafi líka áhrif á rakningu smita.

„Haustflensan veldur sams konar einkennum og það getur valdið foreldrum vanda. Það er eðlilegt að þeir átti sig ekki á að um Covid sé að ræða. Því þurfum við öll að vera vakandi yfir því að fara í skimun við minnstu einkenni og koma ekki slöpp í skólann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka