Inga Þóra Pálsdóttir, Baldur S. Blöndal
Forstjóri Senu Live fagnar þeim afléttingum sóttvarnaaðgerða sem heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær. Hann setur ekki út á það að afléttingin fari fram í tveimur skrefum en vonast til að skrefið verði stigið til fulls eftir fjórar vikur.
„Fyrir okkur er þetta stórkostlegt skref og ég er ekki að gagnrýna að þetta sé tekið í skrefum. Viðburðir verða einfaldari og ódýrari í framkvæmd. Þetta hefur mest að segja fyrir viðburði en í kvikmyndahúsum er þetta aðallega einföldun í ferlum,“ segir forstjórinn Jón Diðrik Jónsson.
Áform eru uppi um Andrea Bocelli-tónleika í lok nóvember í Kórnum þar sem gestir verða allt að 7.000. Jón segir að það hafi reynst þrautin þyngri að skipta þeim sem höfðu keypt miða niður í 500 manna hólf með tilheyrandi aðbúnaði eins og reglur gerðu ráð fyrir allt þar til í dag. „Við þurftum einföldun til að geta haldið þetta þokkalega,“ segir Jón en samkvæmt reglugerðinni sem tók gildi á miðnætti mega nú 2.000 koma saman í einu hólfi.
Þá bendir allt til þess að jólatónleikahald geti farið fram með hefðbundnum hætti.