Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Þorláks Fannars Albertssonar, telur að ekki eigi að fella árás skjólstæðings hans undir ákvæði um tilraun til manndráps. Segir hann mikilvægt að horft sé til þess að Þorlákur hafi stoppað og horfið frá vettvangi af sjálfsdáðum. Þetta kom fram í máli Stefáns fyrir Landsrétti í dag.
Þorlákur var dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi í janúar á þessu ári fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu, sérstaklega hættulega líkamsárás og umferðarlagabrot. Var málinu í kjölfarið áfrýjað til Landsréttar.
Þorlákur hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann réðst á leigusala sinn, Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, í júní á síðasta ári í íbúð við Langholtsveg. Hann gerði þá ítrekað tilraun til að stinga hana í höfuð og efri hluta líkama og hlaut hún ellefu stungusár.
Herdís varðist árásinni með því að bera fyrir sig hendur og fótlegg. Eftir að hún lét sig falla í gólfið sagðist Þorlákur ætla að sleppa henni. Hann fór síðan af vettvangi og náði hún þá að hringja í neyðarlínuna.
Í málflutningnum í dag sagði Stefán Karl að augljóst væri að Þorlákur hefði ekki verið með sjálfum sér þegar árásirnar áttu sér stað. Vísaði hann þá til orða Þorláks og hugmynda hans um hvað hefði gerst.
Sagði Stefán að þó ljóst væri að Þorlákur hefði veist að Herdísi þá verði einnig að taka tillit til þess að hann hafi sjálfur stoppað og gengið burt.
Hann sagði að í lýsingu ákæru sé ekki talað um annað en tilraunir og að verknaður samkvæmt ákærunni félli því ekki undir tilraun til manndráps heldur stórfellda líkamsárás.
Óli Ingi Ólason saksóknari sagði í sínum málflutningi að það lægi fyrir að Þorlákur hefði ekki fullframið manndráp og að í orðalagi ákærunnar komi skýrt fram að honum sé gefið að sök að hafa veist að brotaþola með hníf.
Árás Þorláks á Herdísi var önnur árás hans á síðasta ári en tveimur mánuðum fyrr hafði hann einnig ráðist á félaga sinn. Honum var gefið að sök að hafa frelsissvipt manninn í allt að 17 klukkustundir, kýlt hann hnefahöggi, bundið hendur hans og fætur með dragböndum og lamið hann með kúbeini.
Þorlákur bar fyrir sig að hafa verið í geðrofi er hann framdi árásirnar. Í niðurstöðum geðrannsóknar sem hann gekkst undir í júlí á síðasta ári kom fram að hann hefði lengi notað fíkniefni og væri haldinn miklum ranghugmyndum.
Metið var sem svo að Þorlákur hefði verið í geðrofi þegar hann framdi árásirnar sem var að öllum líkindum framkallað af fíkniefnaneyslu hans.
Í dómi héraðsdóms kom fram að frá árinu 2004 hefði hann hlotið sjö refsidóma fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, tollalagabrot, umboðssvik, hótun og líkamsárás. Þá var áréttað að hann væri sviptur ökuréttindum ævilangt.