Viðræður um sölu Bændasamtakanna á Hótel Sögu hafa mjakast áfram að undanförnu, að sögn Gunnars Þorgeirssonar, formanns BÍ. Hann segir að málin þurfi að skýrast ekki síðar en í næstu viku. Gunnar segir að einkum sé rætt við þrjá aðila, einn í heilbrigðisþjónustu og tvo í hótel- og ferðaþjónustu.
Um tíma var fyrirtækið í greiðsluskjóli sem rann út í júlí í sumar. Arion banki er stærsti kröfuhafi fyrirtækisins.
Hótel Saga var tekið í notkun 1962. Hótelherbergi eru á þriðja hundrað og skrifstofur Bændasamtakanna eru einnig í húsinu. Alls er fasteignin um 20 þúsund fermetrar að stærð. Hótel Saga hefur verið lokuð frá 1. nóvember í fyrrahaust.