Vilja endurvekja íbúasamtök

Íbúar eru margir ósáttir við tillögur um þéttingu byggðar. Meðal …
Íbúar eru margir ósáttir við tillögur um þéttingu byggðar. Meðal annars er lagt til að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði að sérstöku þróunarsvæði og götunni breytt í borgargötu. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Íbúi í Bústaðahverfi hefur lagt inn tillögu þess efnis að Íbúasamtök Bústaða- og Fossvogshverfis verði endurvakin. Boðar hann til fundar í Réttarholtsskóla 4. nóvember þar sem lögð verður fram tillaga að lögum samtakanna, stjórn verður kosin og umræða haldin um málefni sem brenna á íbúum hverfisins.

Þetta kom fram í færslu íbúans á 108 hverfishópnum á Facebook.

Fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur verður boðið á fundinn ásamt fulltrúum frístundasviðs borgarinnar, að því er fram kemur í færslunni. Þar eru einnig íbúar sem hafa hug á að bjóða sig í stjórn hvattir til að hafa samband.

Meðfylgjandi í færslunni var skjal með tillögum að lögum tilvonandi samtakanna. Segir þar meðal annars að tilgangur félagsins sé: 

  1. Að vera samstarfsvettvangur íbúa og félagasamtaka á félagssvæðinu.
  2. Að vinna að framfara- og hagsmunamálum í Bústaðarhverfi.
  3. Að stuðla að samhug innan svæðisins.
  4. Að byggja upp samstarf við opinberar stofnanir sem hafa með málefni hverfisins að gera.
  5. Að byggja upp samstarf við önnur íbúasamtök.
  6. Að hvetja íbúa til hugmynda og athafna fyrir hverfið.

Endurvakning mögulega vegna þéttingu byggðar

Tilefni endurvakningarinnar var ekki tekið fram í færslunni en hægt er að áætla að það tengist tillögum um þéttingu byggðar í hverfinu sem stór hluti íbúa er afar ósáttur við. Hefur þá meðal annars verið kvartað yfir því að tillögur um þéttingu byggðar hafi verið illa kynntar og að þær hafi ekki verið gerðar í samráði við íbúa.

Í vinnutillögum hverfisskipulags er meðal annars gert ráð fyrir 17 nýjum byggingum með 130 til 150 nýjum íbúðum, auk 100 fleiri bílastæða við Bústaðaveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka