Starfsfólk verktakans Gone West gróðursetti hátt í hálfa milljón birkiplantna á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar í septembermánuði. Gone West er fyrirtæki sem vinnur að gróðursetningu trjáplantna í nokkrum löndum Evrópu. Alls voru gróðursettar 456.000 birkiplöntur í um 210 hektara svæði og gekk gróðursetning mjög vel, segir á heimasíðu Skóræktarinnar.
Annar verktaki, Guðjón Helgi Ólafsson, hefur undanfarið unnið, ásamt Einari Páli Vigfússyni, við að gróðursetja um 100 þúsund plöntur neðar á sama svæði. Í allt verður því yfir hálfri milljón birkiplantna komið í jörð á Hrauneyjasvæðinu áður en vetrar. Skógræktin hefur haft yfirumsjón með þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna.
Þeir reitir sem nú hefur verið gróðursett í eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina, að birkið sái sér sjálft úr þeim yfir nærliggjandi svæði á næstu áratugum. Plönturnar koma flestar frá Sólskógum í Kjarnaskógi, en einnig frá Kvistabæ í Biskupstungum.