Ásvallabraut í Hafnarfirði, sem tengir samanbyggðasvæði sitt hvoru megin Ásfjalls, verður opnuð fyrir umferð klukkan hálf fjögur síðdegis í dag.
Með brautinni verða Skarðshlíð og hverfin ofarlega á Völlum betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
„Einnig mun Ásvallabraut þjóna byggingarsvæðum sem þegar eru í uppbyggingu; s.s. Hamranesi og þeim sem fyrirhuguð eru á svæðinu í náinni framtíð, þ.m.t. Áslandi 4 og Áslandi 5. Opnunin sjálf mun eiga sér stað við torgið á gatnamótum Ásvallabrautar og Stuðlaskarðs í Skarðshlíð,“ segir í tilkynningunni.
Opnunin fer fram þannig að klippt verður á borða á upphafsstað. Í framhaldinu verður farið í samakstur milli þessara byggðasvæða/hverfa í Hafnarfirði. Að því loknu verður opnað fyrir alla umferð.