Angjelin Sterkaj hefur verið dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai en þau Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coelho Carvalho og Murat Selivrada hafa verið sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur en um hið svokallaða Rauðagerðismál er að ræða. Sterkaj var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Sterkaj var dæmdur til að greiða Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Beqirai, fjórar milljónir króna í miskabætur, 27 milljónir króna vegna missis framfærslu og um hálfa milljón króna vegna útfarar. Hann var dæmdur til að greiða syni Þórönnu og Beqirai sjö milljónir króna vegna missis framfærslu og þrjár milljónir í miskabætur. Hann var einnig dæmdur til að greiða nýfæddri dóttur þeirra þrjár milljónir króna í bætur og tæpar 8 milljónir vegna missis framfærslu.
Jafnframt var hann dæmdur til að greiða foreldrum Beqirai, hvorum um sig, þrjár milljónir króna í bætur. Sterkaj var einnig gert að greiða um fjórar milljónir króna í ríkiskostnað vegna málsins.
Angjelin Sterkaj var eini sakborningurinn sem hafði þegar játað að hafa orðið Armando Beqirai að bana þann 13. febrúar síðastliðinn að heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði. Angjelin segir að morðið á Armando hafi verið nauðvörn.
Shpetim Qerimi var ákærður fyrir að hafa tekið þátt í morðinu með því að aka Angjelin á vettvang glæpsins og svo til baka þaðan um leið og hann hafði verið framinn. Við aðalmeðferð málsins kom fram að það hafi liðið minna en mínúta frá því að Angjelin og Shpetim komu í Rauðagerði og þar til þeir voru farnir þaðan aftur.
Claudiu Sofiu Coelho Carvalho var gefið að sök að hafa bent Angjelin á hvenær bíll Armandos keyrði af stað í átt að Rauðagerði, til þess að Angjelin gæti vitað hvenær hann ætti að láta til skarar skríða.
Murat Selivrada var gefið að sök að hafa bent Claudiu á hvaða bíl hún ætti að fylgjast með. Þannig hafi hann tekið þátt í morðinu á Armando, sem hann segir hafa verið náinn vin sinn. Við upphaf aðalmeðferðar fyrir rúmum mánuði sagðist Murat eyðilagður vegna málsins.
Málið allt var mjög umfangsmikið og tók aðalmeðferð þess fyrir héraðsdómi talsverðan tíma. Lögregluskýrsla um málið taldi um 2.000 blaðsíður og vitnin sem komu fyrir dómara við aðalmeðferðina skiptu tugum.