Innbyrða tólffalt koffínmagn og upplifa vanlíðan

„Það þarf ekki endilega að taka þetta út úr samfélaginu …
„Það þarf ekki endilega að taka þetta út úr samfélaginu heldur er mikilvægt að við séum meðvituð um skaðsemina, að við vitum að börnin okkar eru að innbyrða ávanabindandi efni,“ segir Hilmar Þór.

Framhaldsskólakennari hefur unnið með börnum sem drekka níu til tíu orkudrykki daglega, eða því sem nemur um tólf sinnum meira koffíni en þau ættu í mesta lagi að drekka, og glíma við veruleg svefnvandamál og aðrar afleiðingar vegna þess. Hann telur þróunina slæma og mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um þau áhrif sem orkudrykkir geta haft á börn.

„Ég þekki krakka sem nota þessa drykki til þess að fá félagslegt samþykki. Þau vilja drekka þá til þess að passa inn en líka til þess að fá kikkið vegna þess að þau sofa illa,“ segir Hilmar Þór Sigurjónsson, kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og knattspyrnuþjálfari hjá Breiðabliki.

Skýrsla Áhættumatsnefndar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á sviði matvæla, fóðurs áburðar og sáðvöru (ÁN) frá því í fyrra leiddi í ljós að orkudrykkjaneysla íslenskra ungmenna í 8. til 10. bekk sé með því mesta sem þekkist í Evrópu.

„Varfærið mat sýnir að hjá a.m.k. 30% ungmenna í 8.-10. bekk sem neyta orkudrykkja er koffínneysla yfir þeim mörkum sem talið er að valdi neikvæðum áhrifum á svefn (neysla koffíns yfir 1,4 mg/kg líkamsþyngdar á dag). Til samanburðar innbyrða aðeins 5% ungmenna, sem ekki drekka orkudrykki, koffín yfir þessum mörkum,“ segir í skýrslunni.

Í vítahring orkudrykkja

Hilmar hefur orðið vitni að því að ungmenni festist í vítahring orkudrykkja. Þau drekka þá til þess að vera meira vakandi og geta svo ekki sofið vegna koffínsins sem þau hafa innbyrt. Þá sofa þau illa og þurfa þá aftur að sækja í orkudrykki næsta dag.

„Þá verður til einskonar spírall og þá er þetta orðið samfélagsvandamál. Börn eiga ekki að innbyrða meira en 80 milligrömm af koffíni á dag. Í einni svona orkudrykkjadós eru 105 milligrömm,“ segir Hilmar.

Eins og margoft hefur komið fram sofa íslensk ungmenni almennt of lítið. Þannig sýna niðurstöður rannsóknar, sem birtar voru í fyrra, á heilsuhegðun ungra Íslendinga sem Erl­ing­ur Jó­hanns­son, pró­fess­or við menntavís­indavið Há­skóla Íslands, vann ásamt sam­starfs­fólki, að ungmenni á aldrinum 15 til 17 ára sofi að meðaltali aðeins sex klukku­stund­ir á sól­ar­hring sem er tveim­ur klukku­stund­um minna en ald­urs­hóp­ur­inn þarf sam­kvæmt alþjóðleg­um ráðlegg­ing­um.

Samkvæmt skýrslu ÁN er sterkt neikvætt samband milli neyslu íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum og svefns.

„Þau eiga erfiðara með að sofna og hlutfall þeirra sem segist sofa lítið (6 tíma eða minna á sólarhring) er mjög hátt, eða tæplega 16%.“

Enn meiri kvíði og svefnleysi

Hilmar hefur sett upp svefndagbækur fyrir þau ungmenni sem leitað hafa til hans vegna svefnvandamála. Í þær skrá ungmennin hvenær þau fara að sofa, hvenær þau vakna og hvernig þau sváfu. Svo gera þau líka tilraunir með símaföstu, þar sem þau sleppa snjallsímanotkun í daglangt, og draga úr orkudrykkjaneyslu. 

„Í langflestum tilvikum er þetta í lagi hjá þessum krökkum. Það eru þessi jaðartilvik þar sem einhvers konar afeitrunarástand fer í gang. Þetta eru einangruð tilvik þar sem svefninn er á gráu svæði eða þá að þau eru í algjörum vítahring. Þetta býr til spíral í átt að enn meiri kvíða og svefnleysi. Það er búið að kenna líkamanum að nota koffín þegar hann er þreyttur. Svo eykur það kvíðann og svefnleysið og svo skilur fólkið í kringum börnin ekkert hvers vegna þeim líður svona illa.“

Trappa sig niður úr neyslunni

Spurður um jaðartilvikin segir Hilmar að verstu tilvikin sem hann hafi heyrt af séu þannig að ungmenni, allt niður í 14 ára aldur, drekki 9 til 10 orkudrykki daglega, allan sólarhringinn. Þau sofa svo í 3-5 tíma í mesta lagi. Margir orkudrykkjaframleiðendur ráðleggja viðskiptavinum sinum að drekka ekki meira en tvo drykki daglega.

„Þau eru orðin þónokkur sem hafa verið í rosalega djúpum spíral með þetta. Svefninn verður verri þegar það er svona mikið koffín í líkamanum því helmingunartíminn af koffíni eru einhverjir 4-5 klukkutímar. Ef þú færð þér koffín klukkan fjögur síðdegis eru 50% af því farin úr líkamanum klukkan átta og 25% um miðnætti,“ segir Hilmar.

Hann hefur unnið með börnum sem hafa þurft að „trappa“ sig niður með því að draga hægt og rólega úr neyslunni, t.d. með því að fara úr sjö orkudrykkjum einn daginn í sex þann næsta og svo koll af kolli.

„Þetta eru ávanabindandi efni, þau gera sér ekki endilega grein fyrir því en þetta getur alveg virkað á þau eins og hálfgert heróín, tilfinningin er alla vega þannig,“ segir Hilmar.

Í fyrrnefndri skýrslu ÁN segir að „framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla ungmenna í 8.-10. bekk sé meiri en æskilegt er, hafi neikvæð áhrif á svefn og andlega líðan þeirra og sé yfir því magni sem valdið getur hækkun á blóðþrýstingi og þar með auknu álagi á hjarta- og æðakerfið.“

Core Heildsala hefur stofnað Afrekssjóð Nocco. Markmið sjóðsins er að …
Core Heildsala hefur stofnað Afrekssjóð Nocco. Markmið sjóðsins er að styðja við framúrskarandi íþróttafólk á Íslandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Vill ekki skjóta á íþróttafólk sem vantar fjármagn

Hilmar bendir á að gjarnan auglýsi íþróttafólk orkudrykki og vakti hann athygli á því á samfélagsmiðlinum Twitter í vikunni að orkudrykkjaframleiðandinn Nocco ætlaði sér að koma á fót styrktarsjóði fyrir afreksíþróttafólk. Það þykir honum skjóta skökku við og segir hann ljóst að ekki sé um íþróttadrykk að ræða heldur koffíndrykk.

„Ég vil ekki skjóta á íþróttafólkið okkar vegna þess að það þarf að lifa af. Við þekkjum alveg dæmi um afreksíþróttafólk sem hefur þurft að hætta að iðka sína grein vegna þess að það hefur ekki efni á því. Þau eru ekkert endilega að fá rosalega mikla hjálp frá samfélaginu í formi annars en lófaklapps þegar vel gengur. Þegar það kemur allt í einu svona sjóður á vegum orkudrykkjaframleiðanda sem býður þeim tugi eða jafnvel hundruð þúsunda bara fyrir það að halda á dós á mynd og setja á Instagram, það býr til freistnivanda hjá íþróttafólkinu líka. Ég skil það ótrúlega vel,“ segir Hilmar og bætir við:

„Hugsanlega er þetta þá orðið mun víðtækara. Kannski þarf ÍSÍ [Íþróttasamband Íslands] að koma á móti og bjóða sama styrk fyrir að birta mynd af sér með vatnsglas, hafragraut og avókadó,“ segir Hilmar sem tekur þó fram að fyrirmyndir beri ábyrgð í þessum efnum.

Koffín bara ein af breytunum

Hilmar segir að menningin hér á landi sé eflaust stór þáttur í orkudrykkjaneyslu ungmenna. 

„Við búum við kaffimenningu, við drekkum kaffi. Ég fell alveg klárlega undir staðalmyndina um kennarann sem drekkur rosalega mikið kaffi og þar að auki er ég tveggja ungra barna faðir þannig að ég drekk ekki bara kaffi vegna þess að mér finnst það gott heldur vegna þess að ég þarf á því að halda. En þá er maður meðvitaður og reynir að fá sér ekki kaffi eftir klukkan fjögur á daginn, reynir að fá eins góðan svefn og allt það en börn eru ekkert endilega á sama stað. Þau hafa ekki sömu ábyrgð og skyldur og við á daginn, þau hafa meiri frítíma jafnvel til þess að geta verið í heilbrigðum lífstíl,“ segir Hilmar. 

Vert er að benda á í þessu samhengi að í skýrslu ÁN kemur fram að hjá a.m.k. 30% ungmenna sem neyta orkudrykkja er koffínneysla yfir þeim mörkum sem talið er að valdi neikvæðum áhrifum á svefn. Til samanburðar innbyrða aðeins 5% ungmenna, sem ekki drekka orkudrykki, koffín yfir þessum mörkum. 

Hilmar telur mikilvægt að taka fram að koffín sé ekki eini orsakavaldur svefnvandamála ungmenna en mikilvægt sé að taka koffínneyslu ungmenna inn í myndina þegar litið er til lífstílsvandamála.

„Það þarf ekki endilega að taka þetta út úr samfélaginu heldur er mikilvægt að við séum meðvituð um skaðsemina, að við vitum að börnin okkar eru að innbyrða ávanabindandi efni,“ segir Hilmar.

„Koffín er bara ein af breytunum í þessu. Þetta er miklu víðtækara vandamál og miklu stærra en að það snúist bara um koffíndrykki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert