Lögreglan á Suðurlandi er nú með talsverðan viðbúnað við nýja gámasvæðið í Þorlákshöfn, þar sem torkennilegir hlutir fundust og er lögregla nú að reyna að komast til botns í því hvort um sprengju sé að ræða.
Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að aðgerðir hafi staðið yfir frá í morgun og líklega sé um klukkustund þar til þeim ljúki.
Hafnarfréttir greindu fyrst frá málinu.
„Það fundust þarna í morgun torkennilegir hlutir sem var vert að skoða með tilliti til öryggis. Þetta var eitthvað sem var líkt sprengjum,“ segir Þorsteinn.
Er búið að átta sig á því hvað hafi verið þarna á ferðinni, voru þetta sprengjur?
„Við erum ekki alveg 100% með þetta ennþá, en það er svona farið að síga á seinni hlutann. Þetta fer að koma í ljós.“
Þorsteinn segir að sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar séu á vettvangi.
Búið er að girða svæðið af en Þorsteinn segir að ekki sé talið að hætta steðji að íbúum í Þorlákshöfn. Honum þykir ólíklegt að komi til rýmingar.
Þorsteinn segir að hlutirnir séu nokkrir, smáir og torkennilegir og að starfsmaður fyrirtækis á svæðinu hafi tilkynnt um málið.