Lögreglan hafi ekki gætt að hlutlægnisskyldu

Dómsuppkvaðning fór fram í Rauðagerðismálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómsuppkvaðning fór fram í Rauðagerðismálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Eggert Jóhannesson

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari gagnrýnir vinnubrögð lögreglu í dómi sínum í Rauðagerðismálinu, sem kveðinn var upp í dag.

Hann bendir á að meðal gagna málsins sé skjal sem beri heitið „samantekt rannsóknardeildar um rannsókn málsins.“

Í slíkri skýrslu skuli koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna.

Við gerð skýrslunnar hafi lögreglu verið skylt að gæta hlutlægni og vinna að því að hið sanna komi í ljós með því að gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, enda sé það meginregla sakamálalaga.

Kafli um kenningar lögreglu

Af aðalmeðferð málsins þótti Guðjóni ekki koma fram svör eða skýringar á vinnu við gerð skýrslunnar og telur hana ekki í samræmi við sakamálalög.

Hnýtir hann í það í forsendum dómsins að í skýrslunni sé meðal annars að finna kafla sem beri heitið „kenningar lögreglu og niðurlag.“ Þar sé sett fram kenning, óháð framburði sakborninga.

„Að  mati dómsins hefur  lögreglan við gerð skýrslunnar ekki gætt meginreglunnar um hlutlægnisskyldu lögreglunnar svo sem henni bar að gera og er það ámælisvert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert