Lengi hafa verið uppi getgátur um viðveru norrænna manna í Norður-Ameríku fyrir um þúsund árum. Nú telja vísindamenn sig hafa sannað búsetu þeirra á Nýfundnalandi, árið 1021.
Frá þessu er greint í rannsóknargrein sem birtist í vísindaritinu Nature í gær.
Búseta norrænna manna í Norður-Ameríku fyrir komu Kólumbusar hefur þótt nokkuð óumdeild en bæði hefur ferðum yfir Atlantshafið verið lýst í Íslendingasögunum og auk þess hafa fornleifar á svæðinu stutt þessa tilgátu.
Samt sem áður er enn mörgum spurningum ósvarað í tengslum við viðveru þeirra í Ameríku. Ein þeirra hefur varðað tímasetninguna. Fram til þessa hefur vísindamönnum ekki tekist að sanna nákvæmlega hvenær norrænir menn voru þar Greinin sem birtist í gær markar því kaflaskil í þeim efnum.
Niðurstöður rannsakenda eru reistar á greiningu timburleifa sem talið er nokkuð víst að hafi tilheyrt norrænum mönnum á Nýfundnalandi. Rannsakendur töldu sig geta ákvarðað nákvæmt ártal þess er þeir skáru út í viðinn, með því að rýna í og gera rannsóknir á ákveðnum þáttum í trjáhringjunum sem voru þar sjáanlegir.
„Við höfum undir höndum sönnun fyrir því að norrænir menn hafi verið í N-Ameríku árið 1021. Þessi tímasetning markar örugg tímamót í sögu víkinga. Það sem er mikilvægara, er að þetta markar nýja tímasetningu um vitneskju Evrópubúa um Ameríku, og táknar fyrsta þekkta tímapunktinn sem vitað er til þess að menn hafi farið umhverfis hnöttinn,“ segir í greininni.