Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða (e. Arctic Circle), er ánægður með kórónuveirulaust Hringborð Norðurslóða, sem haldið var í síðustu viku.
Þrátt fyrir að gestir Hringborðsins hafi margir hverjir þurft að fara í tvígang í skimun fyrir kórónuveirunni á meðan þingið stóð yfir greindust engin smit á meðal gesta.
Rúmlega 1.400 þátttakendur frá 50 löndum sóttu þingið sem var þriggja daga langt. Þingið var skilgreint sem hraðprófaviðburður af heilbrigðisráðuneytinu og þurftu gestir því að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr skimun fyrir Covid-19 sem var ekki eldri en 48 klukkustunda gömul áður en þeim var hleypt inn á þingsvæðið í Hörpunni.
Ólafur fagnar þessu í tísti á Twitter.
„Fullkomin einkunn! Engin Covid smit. Fleiri en 1.400 þátttakendur. Frá fleiri en 50 löndum. Sem allir fóru í skimun.“
Perfect score! No COVID case. Over 1400 participants. From more than 50 countries. All tested. https://t.co/ZBNIwGBHie
— Ólafur Ragnar Grímsson (@ORGrimsson) October 21, 2021