Sprengdu upp fallbyssukúlu úr seinna stríði

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að störfum.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að störfum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sprengdi í fallbyssukúlu úr seinna stríði í loft upp nærri Þorlákshöfn í dag. 

Vegfarandi afhenti lögreglu kúluna, sem hann hafði fundið á víðavangi. Þegar betur var að gáð reyndist hún virk og var því gripið til áðurnefndra aðgerða. 

Þetta er þó alls ótengt öðrum störfum Landhelgisgæslunnar á svæðinu í dag, en eins og greint hefur verið frá fannst torkennilegur hlutur á nýja gámasvæðinu í Þorlákshöfn. 

Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á staðinn ásamt séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar og var viðbúnaður lögreglu á vettvangi mikill. 

Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, sagði við mbl.is fyrr í dag að aðgerðir á vettvangi hafi hafist í morgun og staðið yfir þar til um klukkan 13. 

Í ljós kom að torkennilegu hlutirnir reyndust ekki sprengjur, en grunur lék á um að svo væri. Viðbragðsaðilar voru þá kallaðir til baka, en réðust síðan í aðgerðir þegar gamla byssukúlan fannst. 

Í svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn mbl.is um málið segir meðal annars að algengt sé að stríðsmunir frá síðari heimstyrjöld finnist í íslenskri náttúru og jafnvel á heimilum fólks. 

Við slík tilefni sé mikilvægt að hafa samband við lögreglu og gæta þess að hreyfa ekki við umræddum hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert