Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um þjófnað á 400 metra löngum, 25 karata jarðvír af vinnusvæði vestan við Sandgerðisveg í vikunni. Málið er í rannsókn, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þar segir einnig að tvö ungmenni hafi verið handtekin í umdæmi lögreglunnar í gær vegna gruns um að þau stæðu að sölu og dreifingu fíkniefna,
„Í bifreið sem þau voru á fundust meint kannabisefni auk hvíts efnis pokum. Í húsleit sem gerð var á heimili þeirra, að fenginni heimild, fundust pokar með hvítu efni. Um var að ræða umtalsvert magn. Viðkomandi reyndust vera með allháa fjárhæð í vörslum sínum. Að lokinni skýrslutöku voru þau frjáls ferða sinna en tilkynning var send á barnaverndarnefnd vegna piltsins sem er undir lögaldri,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur sömuleiðis fram að lögreglunni hafi borist tilkynning um þjófnað á tveimur úlpum, að verðmæti tæplega 170 þúsund króna hvor, úr verslun Bláa lónsins fyrr í vikunni. Þegar öryggismyndavélar á svæðinu voru skoðaðar kom í ljós að sömu aðilar og grunaðir eru um úlpuþjófnaðinn höfðu komið inn í verslunina nokkrum dögum fyrr og þá tekið með sér þrjár húfur sem þeir greiddu ekki fyrr.