Byrlunarfaraldur geisi í Reykjavík

Birgitta segist vonast til þess að eitthvað meira fari að …
Birgitta segist vonast til þess að eitthvað meira fari að koma í ljós. mbl.is/Ari

Birgitta Líf Björns­dótt­ir, eig­andi skemmti­staðar­ins Banka­stræti Club, seg­ir að byrl­un­um hafi fjölgað veru­lega á skemmtistöðum í miðbæ Reykja­vík­ur síðastliðnar helg­ar. Hún lík­ir ástand­inu við ein­hvers kon­ar far­ald­ur.

„Ég veit um nokk­ur til­vik, bæði hjá okk­ur og öðrum stöðum niðri í bæ núna síðastliðnar helg­ar þar sem þetta virðist vera að koma upp og virðist ein­hvern veg­inn vera að fær­ast í auk­ana, það er eins og það sé ein­hver far­ald­ur í gangi,“ seg­ir hún í sam­tali við mbl.is.

Birgitta seg­ir að staður­inn taki þessu mjög al­var­lega. Farið sé yfir upp­tök­ur ef til­felli koma upp en oft sé lítið hægt að sjá á þeim.

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club.
Birgitta Líf Björns­dótt­ir, eig­andi skemmti­staðar­ins Banka­stræti Club. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Ítreka fyr­ir starfs­fólki ein­kenni byrl­ana

Að henn­ar sögn eru starfs­menn staðar­ins vak­andi gagn­vart ein­kenn­um byrl­ana. Þeir hafi í öll­um til­vik­um hringt á sjúkra­bíl og fylgt mann­eskj­unni út.

„Ég var per­sónu­lega sjálf á staðnum eitt skiptið þegar það var haldið á stelpu út og ég beið úti með henni ásamt starfs­manni á meðan við biðum eft­ir sjúkra­bíl,“ seg­ir hún.

„Síðan er spurn­ing hvort það sé verið að setja ofan í drykki eða hvort það sé eitt­hvað nýtt í gangi, þannig að við fylgj­umst mjög mikið með og höf­um ít­rekað við starfs­fólkið okk­ar ein­kenni byrl­ana og að vera vak­andi fyr­ir gest­um.“

Hún seg­ist von­ast til þess að eitt­hvað meira fari að koma í ljós en þar sem byrlan­irn­ar eru ekki bundn­ar við ein­hvern einn stað sé greini­legt að það séu fleiri en bara ein­hver einn aðili sem sé að þessu.

„Við erum að impra á því sem við höf­um verið að gera og að skoða frek­ari aðgerðir af okk­ar hálfu.“

Spurn­ing hvort næstu skref séu að leitað sé á fólki

Í kjöl­far at­viks sem átti sér stað á Banka­stræti Club að kvöldi laug­ar­dags­ins 9. októ­ber, þar sem tveim­ur karl­mönn­um á þrítugs­aldri var ógnað af öðrum gesti með hnífi, seg­ir Birgitta að það sé spurn­ing hvort að næstu skref séu að leitað verði á fólki á skemmtistöðum á Íslandi.

„Síðan er maður að lesa frétt­ir af klúbb­um er­lend­is að fólk vilji að það sé leitað á aðilum áður en að það sé komið inn, sér­stak­lega í ljósi nýrra aðferða þar sem er verið að stinga fólk til að byrla þeim,“ seg­ir hún.

„Maður veit nátt­úru­lega ekki hvort að eitt­hvað slíkt sé komið til Íslands en það er spurn­ing hvort að það sé næsta skref – að það sé bara leitað á öll­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert