Hjörvari gert að greiða hálfa milljón í sekt

Hjörvar Hafliðason, eigandi hlaðvarpsins Dr. Football.
Hjörvar Hafliðason, eigandi hlaðvarpsins Dr. Football. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmiðlanefnd hefur úrskurðað að hlaðvarpið Dr. Football hafi brotið gegn reglum um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi í hlaðvarpinu. Sektarfjárhæðin við brotunum nemur hálfri milljón króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni en þar segir að henni hafi borist ábendingar vegna hlaðvarpsins þar sem vakin var athygli á því að hlaðvarpið væri ekki skráður fjölmiðill hjá fjölmiðlanefnd og að viðskiptaboð fyrir áfengi væru áberandi í hlaðvarpinu.

Eigandi hlaðvarpsins er Hjörvar Hafliðason fjölmiðlamaður, en hlaðvarpið er eitt það vinsælasta á landinu.

Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af tekjum af broti, umfangi og alvarleika þess og því að Hjörvar varð ekki við ítrekuðum beiðnum Fjölmiðlanefndar um að skrá starfsemi sína og brást ekki við erindum nefndarinnar fyrr en stefnuvottur var sendur að heimili hans, eftir því sem lesa má úr tilkynningunni.

Telur skilgreiningu hugtaksins fjölmiðill víðtæka

Í svari Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, lögmanns fyrir hönd hlaðvarpsins, til Fjölmiðlanefndar, sem Hjörvar undirritar, er mati nefndarinnar mótmælt.

Kemur þá þar fram að hvað skráningarskyldu hlaðvarpsins varðar teldi Hjörvar að skilgreining hugtaksins fjölmiðill, eins og hún kæmi fram í frummati Fjölmiðlanefndar, væri úr hófi víðtæk. Með henni væri hægt að setja nær öll hlaðvörp og miðlun einstaklinga og lögaðila á samfélagsmiðlum undir sama hatt.

Sama umræða og áður

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir í samtali við mbl.is að svipuð umræða um hvað teldist vera fjölmiðill hafi átt sér stað fyrir tíu árum síðan er lög um netmiðlun voru sett á.

„Þetta er náttúrulega kannski nýtt varðandi hlaðvörpin þótt þetta sé búið að vera náttúrulega inni í lögunum alveg frá 2011,“ segir hún.

„Það var náttúrulega þá þannig að hlaðvörp væru tengd fjölmiðlum, þannig að það er kannski það sem að er nýtt. Þetta er í raun og veru sama umhverfið svolítið í hlaðvörpunum eins og í netmiðlum þegar lögin voru sett fyrir tíu árum síðan, þá var þessi nákvæmlega sama umræða um það hvað telst vera fjölmiðill.“

Sjálfur vildi Hjörvar ekki tjá sig þegar mbl.is leitaði eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert