„Ætli það megi ekki segja að Kjarval sé kominn aftur í tísku og tími kominn til,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri hjá Gallerí Fold. Þar á bæ lauk í byrjun vikunnar vefuppboði á „perlum í íslenskri myndlist“, völdum úrvalsverkum frá mörgum af þekktari málurum þjóðarinnar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Meðal verka á uppboðinu voru fimm málverk eftir Jóhannes Kjarval, meðal annars eitt af elstu olíuverkum hans, Kálfhamarsvík, sem talið er að hann hafi málað 1902-1904 eða þegar hann var 17-19 ára. „Söguleg mynd,“ segir Jóhann Ágúst en verkið fór á rúmar tvær milljónir króna. Verkið Hraungígur eftir Kjarval seldist á 2,8 milljónir sem er tvöfalt hærra en matsverð var. Skýjadans Kjarvals fór svo á um fjórar milljónir sem var nokkru yfir matsverði.