Í dag skrifuðu ríkislögreglustjóri, formaður Rauða krossins á Íslandi og formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar undir endurnýjað „Samkomulag um hjálparlið almannavarna“, sem síðast var endurnýjað árið 2012.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en þar segir einnig að samkomulagið sé gert á grundvelli almannavarnalaga og tryggir sem fyrr aðkomu sjálfboðaliða Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar að almannavarnaviðbragði landsins.
Að undirritun lokinni staðfesti dómsmálaráðherra samkomulagið. Við sama tækifæri voru undirritaðir sérsamningar ríkislögreglustjóra við félögin bæði um nánari skilgreiningu verkefna þeirra og verklag í almannavarnaaðgerðum.
Í tilkynningunni segir að framlag Rauða krossins á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar séu, eins og dæmin sanna, almannavörnum og samfélaginu öllu ómetanlegur stuðningur.