Ákæruvald í sakamálum hér á landi virðist hafa tilhneigingu til þess að leggja fyrir dómara viðbótarskjöl, sem vonast er til að séu notuð við sakfellingu, þvert á lög.
Þetta sýna dæmi síðustu ára, nú síðast í Rauðagerðismálinu, sem lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.
Þar vék Guðjón Marteinsson dómari að því í dómi sínum að fyrirlagning lögregluskýrslu um málið, þar sem fram komu í greinargerð ósannaðar kenningar lögreglu um málið, hafi verið ámælisverð.
Þetta segir Geir Gestsson, lögmaður eins þeirra sem sýknaður var í Rauðagerðismálinu í gær, að sé tilraun ákæruvaldsins til þess að svindla, þar sem framlagning viðlíka skýrslu er ólögleg.
„Svona brot hafa átt sér stað áður af hálfu lögreglu og ákæruvalds, þar sem lagðar eru fram skýrslur án þess að lagaheimild sé fyrir því og þetta eru í raun viðbótarákæruskýrslur, þetta eru málsóknarskjöl. Það er svindl að leggja þetta fram.“ segir Geir.
Orðaval Geirs er lýsandi, þar sem ekki virðist vera hægt að gera neitt nema að slá á handarbak ákæruvaldsins, þegar það verður uppvíst að framlagningu skýrsla eins og þeirri sem kastljósið beindist að í Rauðagerðismálinu. Þannig má leiða að því líkur að hugsun ákæruvaldsins sé sú að alveg sé hægt að leggja skýrslur af þessum toga fram, þar sem ólíklegt er að það hafi neinar sérstakar afleiðingar.
Geir segir einnig að brotavilji ákæruvalds sé einbeittur, þar sem fullvitað sé að framlagning skýrslu þar sem fram koma kenningar lögreglu, sem ekki byggja á frumgögnum máls, sé með öllu ólögleg.
„Þetta leiðir aldrei til þess að neitt gerist. Mál ónýtast aldrei eða neitt slíkt heldur fær ákæruvald bara einhverjar aðfinnslur frá dómnum, en það hefur engin áhrif. Þess vegna heldur ákæruvaldið bara áfram að gera þetta, sem er svo alvarlegt,“ segir Geir.
Tekið skal fram að lögum samkvæmt tekur lögregla saman skýrslu um rannsókn sakamála. Hins vegar snýst deilan um að ákæruvald virðist hafa tilhneigingu til þess að hlutast til um að í slíkum skýrslum séu kaflar, sem ekkert erindi eiga fyrir dómi.
Margeiri Sveinssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem kom fyrir héraðsdóm í Rauðagerðismálinu til þess að ræða skýrsluna, var gefið tækifæri til þess að veita gagnrýni á hendur lögreglu og ákæruvalds andsvar. Í samtali við mbl.is í dag sagðist hann ekki vilja tjá sig um málið, þar sem meðferð þess fyrir dómstólum er líklega ekki lokið enn.
Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir að það sé hlutverk lögreglu og ákæruvalds að huga vel að hlutlægni í sínum störfum. Það að dómari í Rauðagerðismálinu kveði sérstaklega á um það í dómi sínum að starfshættir lögreglu og ákæruvalds hafi verið ámælisverðir, segi sína sögu.
Með þeim fyrirvara að hann þekki ekki reglur þar um nægilega vel, segist Sigurður ekki vita til þess hvort framlagning skýrslunnar í Rauðagerðismálinu sé refsiverð háttsemi að einhverju leyti.
„Það sem er kannski alvarlegast í þessu er að þetta veitir innsýn inn í einhvern þankagang sem er annars ekki opinber og sem er ekki í anda laganna né í samræmi við þessa lagaskyldu, það að líta til beggja hliða þ.e. sektar og sakleysis. Það er auðvitað áhyggjuefni ef það er í alvöru svo að þetta sé almennt hugarfar. En í mínum störfum, sem lögmaður og verjandi, hef ég ekki séð svona vinnubrögð áður, þannig ég vona að þetta hafi verið einsdæmi og að menn læri af þessu,“ segir Sigurður.
Þó eru til þekkt dæmi um að framlagning skýrslu eða skjala, í krafti sömu lagaákvæða og ákæruvaldið studdist við í Rauðagerðismálinu, komi til kasta dómstóla. Þekktasta dæmið er án efa Al Thani-málið þar sem Hæstiréttur úrskurðaði að skjal sem ákæruvald lagði fram uppfyllti ekki ákvæði laga um framlagningu viðbótarskjala. Dæmi um slíkt eru til úr fleiri hrunmálum.
Spurður út í þetta segir Sigurður að reglulega séu skýrslur rannsakenda eru teknar saman og lagðar fram. Hins vegar hafði það verið gert með þeim hætti í Rauðagerðismálinu að engum duldist að þar væru á ferð ósannaðar kenningar lögreglu.
„Það gerist reglulega að það eru teknar saman svona skýrslur rannsakenda. Þessi skýrsla var kannski óvenjuleg að því leyti að þarna var farið fram með kenningar sem virðast ekki hafa átt sér stoð í gögnum málsins. Ef maður les dóminn sjálfan, þar virðist eins og menn hafi misst sjónar á þessum skyldum um hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins. Hornsteinn í rekstri sakamála er þessi hlutlægnisskylda,“ segir Sigurður, sem segir aðspurður að líklega verði málið rætt á meðal félagsmanna Lögmannafélags Íslands.