Slökkviliðið með tvö alvarleg mál í kæruferli

Verkamenn voru látnir gista í svefnkössum við Smiðshöfða.
Verkamenn voru látnir gista í svefnkössum við Smiðshöfða. Ljósmynd/SHS

Ein­ar Berg­mann, fag­stjóri for­varna­sviðs Slökkviliðs höfuðborg­ar­svæðis­ins, segir að ánægjulegt sé hvernig slökkviliðið er nú í auknum máli að láta kné fylgja kviði þegar kemur að ákærum. 

Í erindi sínu á námsstefnu slökkviliðsins á Hotel Natura, sem hófst í dag, fór hann yfir mál sem slökkvilið kærði, þar sem ábyrgðarmaður starfsmannaleigu hlaut dóm fyrir að virða lög um brunavarnir að vettugi. 

Í húsnæði sem viðkomandi hafði til umráða að Smiðshöfða 3, bjuggu á þriðja tug erlendra farandverkamanna við stórhættulegar aðstæður. Svefnaðstöðu var komið fyrir í eins konar viðarkössum, sem staflað var hverjum ofan á annan og rafmagnsleiðslur héngu utan á kössunum. 

Málið var það fyrsta sem slökkvilið kærði til lögreglu og hlaut sakborningur fimm mánaða skilorðsbundinn dóm, eins og Einar rakti í erindi sínu. 

Annað málið enn verra

Hann segir að tvö önnur mál séu nú til rannsóknar lögreglu og í kæruferli og segir Einar að annað þeirra sé verra en það sem hann rakti í morgun.

Einar minntist einnig á það að Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, sem sótti málið fyrir ákæruvaldið, hafi sagt óvanalegt að sakfelling hafi fengist í öllum ákæruliðum. Vanalega standi einhverjir ákæruliðir út af, en í þessu máli hafi brotavilji ábyrgðarmannsins verið mjög einbeittur. 

„Við erum að feta vonandi rétta braut og erum að láta kné fylgja kviði,“ sagði Einar undir lok erindis síns og vísar þannig til þess að slökkviliðið ætli sér að kæra fleiri mál, þar sem lög um brunavarnir eru virt að vettugi, með þeim afleiðingum að fólki er stefnt í lífsháska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert