Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um forsjársviptingu þar sem forsjárhæfni foreldrisins var talin of óstöðug til að hægt væri að fallast á kröfur þess.
Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar.
Í dómnum var litið til þess að frá níu mánaða aldri hefði barnið ekki verið í umsjá foreldra sinna og á því tímabili hefði það einungis hitt áfrýjanda tvisvar sinnum. Ef fallist yrði á kröfu hennar myndi það valda raski á lífi barnsins þar sem það hefði dafnað og aðlagast félagslega umhverfinu í fósturvistuninni.
Var þá einnig horft til þess að lífshlaup áfrýjanda einkenndist af óstöðugleika þar sem hún hefði langa áfallasögu, glímdi við fíknivanda og stríddi við djúpstæða bresti í persónuleika. Var sá stutti tími sem áfrýjandi hefði verið edrú ekki talinn nægur til að veita henni umsjá yfir barninu á ný.
Í niðurstöðum matsgerðar sem unnin var af sálfræðingi í vor kemur fram að ljóst sé að áfrýjanda þyki afar vænt um dóttur sína. Hafi hún annast hana vel miðað við aðstæðurnar sem hún og faðir barnsins hefðu skapað í sambúð sinni. Fíkn áfrýjanda leiddi þó til vanrækslu á barninu, sem var að lokum tekið af þeim.
Kemur þá einnig fram að skilningur áfrýjanda á þörfum barnsins sé takmarkaður í ljósi þess að hún þekki lítið til þess og tengist því óverulega.
„Þegar matsmaður ræddi við áfrýjanda um þarfir barnsins á mismunandi aldri og þroskakeiði voru svör hennar öll almenns eðlis og fremur grunn. Benti ekkert til ákveðins innsæis í þarfir barna eða uppeldisskilyrði þeirra. Í matsgerðinni segir þó að áfrýjandi hafi almenna hæfni til að sinna þörfum barnsins að einhverju marki,“ segir í dómsúrskurðinum.
Kemur þá einnig fram að áfrýjandi eigi von á barni og hafi hún ekki íhugað það mikla álag sem gæti fylgt því að hafa bæði börnin hjá sér samtímis og sinnt þeim báðum uppbyggilega.
„Kemst matsmaður að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni áfrýjanda sé skert og innsæi hennar í þarfir barnsins gloppótt og byggist mjög mikið á óskhyggju og óraunhæfum væntingum.“