Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var ómyrkur í máli í erindi sínu á ráðstefnu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Þar sagði hann að skilaboð sóttvarnayfirvalda væru ekki hræðsluáróður, eins og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks hefur látið hafa eftir sér.
Auk þess sagði Þórólfur að lítill grundvöllur væri fyrir því að segja takmarkanir á Íslandi harðari en í nágrannalöndum. Þar sem þær eru þó vægari eða fallið hefur verið frá þeim að öllu leyti, er staðan yfirleitt að versna.
„Af hverju getum við ekki gert eins og Danir, Danir eru búnir að aflétta öllu?“ segir Þórólfur og vísar til orða margra sem vilja fara að fordæmi þeirra, en öllum takmörkunum í Danmörk var aflétt fyrir um mánuði.
„Hvað er að gerast í Danmörku? Það er um það bil mánuður síðan Danir afléttu öllu og á þeim tíma og lengi vel voru þeir að greina svona um 300 á dag. Svo allt í einu hljóp þetta upp í svona 6-700 á dag og síðustu tvo daga hefur þetta verið tæplega 1.300 á dag, sem þeir eru að greina,“ segir Þórólfur og veltir fyrir sér hvort afléttingarnar séu að koma í bakið á frændum okkar Dönum.
Til viðbótar við Danmörku vísaði Þórólfur til stöðunnar á fleiri Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum þar sem sums staðar er allsherjarútgöngubann.
„Ástandið hér í takmörkunum er ekkert verra en í flestum öðrum löndum. Ég held að það sé hollt að muna það,“ segir Þórólfur og sendir pillu til borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: „Þetta er ekki hræðsluáróður.“
Hér á Íslandi greinast nú að jafnaði um 60 manns á dag, þó daglega hafi greinst á bilinu 20-80 smit síðustu vikur og mánuði. Þetta segir Þórólfur að sé í raun passlegt, en fari smitin upp í 100-200 á dag sé voðinn vís. Þórólfur segir Landspítala ekki undirbúinn undir slíkt.
Um bólusetningar segir Þórólfur, sem fyrr, að þær hafi ekki reynst eins áhrifamiklar og vonast var til. Þær geri þó sitt gagn, en samt sem áður hafi um helmingur þeirra 130, sem lagst hafa inn á sjúkrahús í yfirstandandi bylgju, verið fullbólusettir. Þannig segir Þórólfur að um 2% fullbólusettra sem smitist þurfi inn á sjúkrahús.
Þar að auki segir Þórólfur að baráttan gegn kórónuveirunni sé erfiðari en oft áður þar sem margir eru, skiljanlega, komnir með upp í kok af takmörkunum og sýkingarvörnum.
„Við erum að eiga við almenning, frammámenn, fjölmiðla og aðra sem segja bara „Þetta er bara búið, þetta er bara búið og hættið þessu og hættið að standa í þessu“,“ segir Þórólfur og minnir á að faraldurinn sé ekki búinn. Enn verði að viðhafa sóttvarnatakmarkanir, bæði samfélagslegar og persónubundnar, til þess að forðast að faraldurinn nái flugi enn á ný.