Nokkrar tafir urðu á umferð um Hamraborg í Kópavogi snemma í morgun eftir að strætisvagn á leið 1 bilaði í hringtorgi.
Þegar átti að draga vagninn í burtu sköpuðust frekari vandræði og því tafðist bæði umferð strætisvagna og annarra um svæðið í örskamma stund.
Guðmundur Heiðar Helguson, upplýsingafulltrúi Strætó bs., segir að búið sé að ráða bót á vandanum og umferð komin aftur í eðlilegt horf.
Hann segir að leið 1 sé farin með slíkri tíðni að næsti vagn hafi verið kominn örfáum mínútum eftir að atvikið varð, til þess að ferja farþega áfram.
Einnig hafi verið heppilegt að vagninn var á leið úr miðbæ í átt að Hafnarfirði en ekki öfugt. Mun fleiri taka leið 1 á morgnana til þess að komast úr Hafnarfirði og Kópavogi til miðbæjar Reykjavíkur.